„Þetta er að fara í gamalkunnar fylgistölur eins og þær voru fyrir hrun,“ segir dr. Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur um niðurstöður nýs Þjóðarpúls Gallups. Fram kemur í könnuninni að samanlagt fylgi stjórnarflokkanna hefur minnkað um 9% síðan í maí 2009.
En í maí 2009 mældist Samfylkingin með 28% fylgi og VG 22% fylgi í Þjóðarpúlsinum. Fylgi Samfylkingar mælist nú 23% en VG 18%.
„Það hafði aldrei gerst fyrir alþingiskosningarnar 2009 að vinstriflokkarnir næðu samanlagt yfir 50% þingsæta. Þær kosningar voru mjög óvenjulegar. Fyrir 1999 höfðu Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag og svo VG og Samfylkingin eftir 1999 mælst með samanlagt um 30-40% stuðning. Það var því ekki hægt að búast við því í ljósi sögunnar að þessir flokkar myndu halda áfram að mælast áfram með yfir 50% fylgi í könnunum.
Það ber líka að horfa til þess að ríkisstjórnin glímir við mörg erfið og óvinsæl mál og nýtur ekki mikils stuðnings.“
Stefanía bætir því við að síðustu áratugi hafi lausafylgi verið ríflega 30%. Sú fylking skiptist nú nokkurn veginn í tvo hópa, skv. nýjum Þjóðarpúlsi Gallups, en um 13% svarenda tóku ekki afstöðu og rúmlega 16% kváðust mundu skila auðu eða ekki mæta á kjörstað.
„Það er enn heilmikið fylgi að vinna fyrir þá flokka sem það vilja.“
Fram kom í Þjóðarpúlsinum að fylgi við ríkisstjórnina hefði verið 61% í maí 2009, strax eftir kosningar, en það mælist nú 37%. Það fór lægst í 30% í október í fyrra en um það leyti var efnt til fjöldamótmæla vegna meints skorts á aðgerðum í málefnum skuldara.