Töluvert snjóaði á Akureyri í dag og höfðu þessir krakkar byggt snjókarl og snjókerlingu um kvöldmatarleytið. „Þau leiðast og eru á leið á stefnumót,“ sagði einn strákanna. Krakkarnir sögðust hafa ætlað að láta snjókerlinguna halda á barni og reisa snjóbarn við hlið karlsins en hætt við það.
Lögreglumaður á Akureyri sem mbl.is ræddi við taldi að fallið hefðu um 10 sentímetrar af jafnföllnum snjó. Það þætti ekki tiltakanlega mikið á Akureyri.
Hlíðarfjall var opið í dag og búist er við að hægt verði að opna í Bláfjöllum á morgun. Þar var lokað í dag vegna veðurs.