Skilanefnd Landsbanka Íslands hefur leyst til sín íbúð sem Jón Ásgeir Jóhannesson átti í Gramercy Park North í New York. Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi skilanefndarinnar, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Greint var frá sölunni í The New York Observer. Þar segir að íbúðin hafi kostað 22 milljónir dala (um 2,5 milljarða kr.) og sé um 400 fermetrar að stærð.
Páll segist ekki geta tjáð sig um upphæðina, en segir hins vegar að þetta sé „verðmæt eign.“
Fram kemur í frétt Observer að kaupandinn sé Eyjólfur Gunnarsson. Páll segir að Eyjólfur sé starfsmaður skilanefndarinnar sem sjái um eignir og eignaumsýslu. Hann hafi verið í New York fyrir nokkrum vikum til að skoða íbúðina og hefja undirbúning að því að fá aðila til að annast söluferlið. Það sé eignarhaldsfélagið Mynni ehf. sem hafi tekið íbúðina yfir fyrir hönd skilanefndarinnar, en Mynni er í eigu Landsbanka Íslands hf.
„Það er tiltölulega nýlega sem var endanlega gengið frá þessu. Það er
lengi búið að vera ljóst hvert stefndi í þessu,“ segir Páll.
Ómögulegt sé að segja hvenær íbúðin verði seld. „En á næstunni verður þetta sett í sölu og við erum að undirbúa það,“ segir Páll. Fjárhæðin muni svo skila sér í þrotabú bankans.
Íbúðin er önnur af tveimur eignum sem Jón Ásgeir átti í New York.