Jeppamenn ætla að kæra

Skrauti við Vonarskarð rétt fyrir ofan Hágöngur.
Skrauti við Vonarskarð rétt fyrir ofan Hágöngur. mbl.is/Brynjar Gauti

Stjórn Ferðaklúbbsins 4x4 mótmælir harðlega þeirri ákvörðun umhverfisráðherra að staðfesta verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs. Stjórnin telur að það ferli sem viðhaft var við stofnun þjóðgarðsins standist ekki stjórnsýslulög og munu samtökin kæra meðferð málsins.

Í yfirlýsingu stjórnarinnar segir að með þessu verði aðgengi almennings að þjóðgarðinum verulega takmarkað. Stjórn þjóðgarðsins hafi hunsað allar ábendingar og tillögur sem hefðu getað stuðlað að sátt um málið. „Að stofna til stærsta þjóðgarðs í Evrópu án samráðs við þá aðila sem hafa hvað mest nýtt náttúru landsins sér til ánægju og yndisauka eru forkastanleg vinnubrögð og ekki sú stjórnsýsla sem á að sjást á Íslandi nútímans,“ segir í yfirlýsingunni.

Ferðaklúbburinn 4x4 gagnrýndi ýmislegt í þeim drögum sem stjórn þjóðgarðsins sendi ráðherra til staðfestingar, einkum þó áform um að loka Vonarskarði með öllu fyrir umferð ökutækja. Reyndar verður einnig bannað að fara þar um á hestum og mótmæltu hestamenn þeirri tillögu harðlega. 

 Hefði átt að senda málið til nýrrar stjórnar

„Öll undirbúningsvinna að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er fráfarandi stjórn garðsins til vansa og hefði ráðherra án tafar átt að senda málið til nýrrar stjórnar garðsins og óska eftir að málið yrði unnið í sátt þá fjölmörgu útivistarhópa sem nýta vilja garðinn svo sem jeppamenn, vélsleðamenn, hestamenn, skotveiðimenn, stangaveiðimenn, ferðaþjónustuaðila og fleiri,“ segir í yfirlýsingu stjórnar Ferðaklúbbsins 4x4.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert