Landbúnaðarvörur hækka

Miklar hækkanir hafa orðið frá því í haust á verði á grænmeti, ávöxtum, mjólkurvörum, ostum og kjötvörum í vörukörfu ASÍ, að því er fram kemur í nýrri mælingu verðlagseftirlitsins sem gerð var nú í febrúar.

Við samanburð á mælingu verðlagseftirlitsins frá því í nóvember 2010 og nú í febrúar, hækkaði vörukarfan í öllum verslunum nema 11/11 og Samkaupum-Úrvali, en mesta hækkunin er í Hagkaupum um 9,1% og Bónus um 5,1%. Kostur neitaði að taka þátt í mælingunni.

Í lágvöruverðverslununum hækkaði verð vörukörfunnar mest hjá Bónus um 5,1% sem skýrist að stærstum hluta vegna hækkunar á grænmeti og ávöxtum (16,4%), mjólkurvörum, ostum og eggjum (7%) og kjötvörum (5,8%). Í Krónunni hækkaði vörukarfan um 3,5% sem skýrist að stærstum hluta vegna hækkunar á grænmeti og ávöxtum (16%), mjólkurvörum, ostum og eggjum (6,5%) og kjötvörum (6,1%). Í Nettó hækkaði vörukarfan um 1,1%. 

Í stórmörkuðum og klukkubúðum hækkaði verð vörukörfunnar mest hjá Hagkaupum um 9,1%, sem skýrist að stærstum hluta vegna hækkunar á kjötvörum (29,8%), grænmeti og ávöxtum (14,6%) og mjólkurvörum, ostum og eggjum (4,6%).

Í Nóatúni hækkaði vörukarfan um 4,5% sem skýrist að stærstum hluta vegna hækkunar á grænmeti og ávöxtum (12,7%), kjötvörum (5,2%) og sykri, súkkulaði, sælgæti og fl. (11,2%).

Í 10-11 hækkaði vörukarfan um 4,4% sem skýrist að stærstum hluta vegna hækkunar á kjötvörum (5,2%), grænmeti og ávöxtum (14,1%) og mjólkurvörum, ostum og eggjum (8,8%).

Í Samkaupum-Strax hækkaði vörukarfan um 2,3%. Verð vörukörfunnar hefur lækkað hjá 11/11 um (-1,2%) vegna lækkunar á sætindum um (-6,7%) og snyrtivörum um (-7,4%).

Í Samkaupum-Úrvali lækkaði vörukarfan um (-0,6%) vegna lækkunar á sætindum um (-13,3%).

Vefur ASÍ

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert