Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, sagði á Alþingi í dag að upptaka evru á núverandi gengi myndi þýða að lítið yrði úr skuldum heimilanna, en eignir myndu jafnframt lækka sem kæmi niður á lífeyrisgreiðslum.
Hún segir vextir myndu lítið lækka við upptöku evrunnar því útlendingar vilji ekki lána til vandræðalanda.
Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun vilja um 60% landsmanna skipta krónunni út fyrir annan gjaldmiðil. Lilja sagði í umræðum á Alþingi að athygli vekti að framsóknarmenn vildu almennt halda í krónuna.
„Ég óttast að kjósendur annarra flokka sjái upptöku evrunnar sem einu leiðina út úr skuldafangelsinu. Ef krónunni verður skipt út fyrir evru á núverandi gengi verður lítið úr skuldum fólks og laun munu smámsaman hækka og nálgast laun í evrulöndunum. Eignir Íslendinga verða jafnframt lítils virði og því hætta á að lífeyrisgreiðslur muni ekki hækka jafnhratt og laun.
Stöðugt er klifað á því að Íslendingar losni ekki við verðtrygginguna nema að taka upp annan gjaldmiðil. Tvær krónur séu í landinu, ein verðtryggð og önnur óverðtryggð. Þetta vandamál er auðvelt að leysa með því að verðtryggja hina óverðtryggðu krónu eða einfallega launin í landinu. Í gildi eru verðtryggðir lánasamningar sem munu ekki hverfa við upptöku evrunnar,“ sagði Lilja.
Lilja sagði að erlendir bankar lánuðu ekki lengur vandræðalöndum og vextir myndu því lítið lækka á Íslandi við upptöku evrunnar.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að kjósendur Framsóknarflokksins gerðu sér grein fyrir að krónan hefði skipt sköpum við halda atvinnuleysi í lágmarki. Á Írlandi væri atvinnuleysi tvöfalt meira en á Íslandi og á Spáni væri atvinnuleysið þrefalt meira en hér á landi. Sigmundur Davíð sagði að með upptöku evru hefðu sumir átt von á að hún tryggði sömu vexti á öllu svæðinu, en það hefði ekki gengið upp. Portúgal væri að greiða 7% vexti og Írar þyrftu að greiða 9,6% vexti af neyðarlánum sem þeir hefðu fengið.
Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingar, sagði að almenningur á Íslandi væri að átta sig á því að það voru tvær kreppur sem riðu yfir Ísland, þ.e. bankakreppa sem hefði komið illa við ríkissjóð og krónukreppa sem hefði komið illa við fyrirtækin og heimilin í landinu.
„Það var krónukreppan sem olli gengisfellingunni og síðan var það gengisfellingin sem olli verðbólguskotinu sem kom illa við þá sem skulda í íslenskum krónum. Það er hrun krónunnar sem hefur valdið fyrirtækjunum og heimilunum í þessu landi miklu meira tjóni en hrun bankanna.“
Magnús Orri sagði að þeir sem væru fylgjandi krónu væru að bjóða upp á tvo framtíðarkosti, annars vegar krónu án haft með tilheyrandi gengissveiflu og óstöðugleika fyrir fyrirtækin eða hins vegar krónu í höftum sem þýddi að EES-samningurinn væri í uppnámi.
„Báðar þessar lausnir fela í sér umtalsverðan vaxtamun fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. Íslensk heimili og fyrirtæki eru að greiða hærri vexti en þau þyrftu að gera í Evrópu ef upptaka evru myndi koma til. Almenningur á Íslandi er búinn að segja sína skoðun á þessari framtíðarsýn og óskar eftir nýjum leiðum,“ sagði Magnús Orri.