Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 36% fylgi samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallups. Flokkurinn bætir við sig 2% frá síðustu könnun og um 12% frá alþingiskosningunum 2009. Samfylkingin mælist næststærsti flokkurinn, með 23% fylgi, eða tæplega 7% minna en í kosningunum.
Fjallað var um könnunina í fréttum RÚV en þar kom fram að fylgi VG dalar einnig frá kosningunum, fer úr 23,7% í 18% nú.
Framsóknarflokkurinn er einnig enn undir kjörfylgi en hann mælist nú með 14% í púlsinum, en fékk 14,8% í kosningunum 2009.
Hreyfingin mælist nú með 5% en forveri hennar, Borgarahreyfingin, fékk 7,2% fylgi í kosningunum.
Úrtakið var tæplega 7.000 manns og tóku 13% ekki afstöðu. 16% sögðust hins vegar mundu skila auðu eða ekki mæta á kjörstað.
Nálgast má hreyfingu í Þjóðarpúlsinum hér en á vef Gallups kemur fram að ríkisstjórnin mældist með 61% stuðning eftir þingkosningarnar í apríllok 2009.
Samfylkingin mældist þá með 30% fylgi en VG 26% fylgi. Hefur samanlagt fylgi flokkanna því minnkað um 15%, ef marka má nýjasta Þjóðarpúlsinn.