Mál á hendur fréttamanni dómtekið

Svavar Halldórsson, Þóra Arnórsdóttir og María Sigrún Hilmarsdóttir við upphaf …
Svavar Halldórsson, Þóra Arnórsdóttir og María Sigrún Hilmarsdóttir við upphaf aðalmeðferðar í morgun. mbl.is/Sigurgeir

Aðalmeðferð í einkamáli Pálma Haraldssonar, fyrrverandi forstjóra og eiganda Fons, á hendur Svavari Halldórssyni, fréttamanni RÚV, fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Pálmi fer fram á að tiltekin ummæli í frétt Svavars verði dæmd dauð og ómerk auk þess sem Svavar verði dæmdur til refsingar og til að greiða þrjár milljónir króna í miskabætur. Dómur verður kveðinn upp 22. mars nk.

Málið snýst um frétt Svavars frá 25. mars 2010 sem birtist í aðalfréttatíma Ríkisútvarpsins og bar yfirskriftina „Milljarðar hurfu í reyk“. Í henni segir frá 2,5 milljarða króna láni sem Glitnir banki veitti Fons í desember 2007.

Af frétt Svavars má ráða að um hafi verið að ræða flókna viðskiptafléttu og var niðurlag fréttarinnar svohljóðandi: „Einu alvöru peningarnir í þessum viðskiptum voru 2.500 milljónir króna, sem fóru úr Glitni og í hendur Pálma Haraldssonar, en þeir peningar finnast hins vegar hvergi.“

Gísli Guðni Hall, lögmaður Pálma, sagði meðal annars í málflutningi að í fréttinni hefði verið að finna meiðyrði og dróttað að Pálmi hefði stolið umræddum fjármununum eða komið þeim undan, sem sé stórfellt auðgunarbrot ef satt væri.

Áður voru teknar skýrslur af Guðnýju Reimarsdóttur, fv. fjármálastjóra Fons, og aðstoðarkonu hennar. Lagði Gísli Guðni fyrir þær skjöl úr bókahaldi Fons til að sýna fram á hvað hafi orðið um lánsféð. Báru vitnin um að annars vegar hefði það farið í að greiða upp lán hjá Landsbankanum og tæplega 500 milljónir króna til kaupa á bréfum í Sjóði 9 hjá Glitni.

Spurð út í þau ummæli sem viðhöfð voru í frétt RÚV, um að lánsféð hefði horfið í reyk, sagði Guðný að hún gæti ekki tekið undir að neinn reykur hafi verið í málinu. Á engum tímapunkti hafi vafi leikið á því hvað varð um peninginn. Guðný var einnig spurð hvort hún hafi gefið skýrslu hjá skiptastjóra Fons sem Guðný játti. Hún hafnaði því hins vegar að spurt hefði verið út í umrætt lán hjá skiptastjóranum, eða yfirleitt óskað skýringa á því.

Að sögn Gísla Guðna var eina sannleikskornið í frétt Svavars, að Fons hafi orðið gjaldþrota og bankinn fékk lánið ekki endurgreitt. Það hafi ekki réttlætt hvernig fréttin var sett fram, að Pálmi hefði látið fjármuni gufa upp. Gísli sagði að Pálmi hefði lagt fram gögn sem afsanni fréttina og að Svavar geti ekki skýlt sér bakvið heimildarmenn, enda hafi hann greint frá því í fréttinni að hún byggðist á gögnum sem fréttastofa hefði undir höndum.

Hvorki aðdróttanir né móðgun

Í máli Maríu Kristjánsdóttur, lögmanns Svavars, kom fram að fréttin hafi m.a. verið byggð á heimildum nokkurra einstaklinga sem hann telji trúverðuga. Þá sagði hún að ummælin í fréttinni fælu ekki í sér aðdróttanir og ekki hefði verið um að ræða móðgun. Jafnframt sagðist hún ekki telja að lögmanni Pálma hefði tekist að færa sönnur á ráðstöfun peninganna með fullnægjandi hætti. Auk þess hefði Fons fengið fleiri lán í sama mánuði, m.a. upp á tíu milljarða króna.

Hún sagði Svavar m.a. byggja sýknukröfu sína á grundvallareglunni um tjáningarfrelsi. Dómaframkvæmd sé á þann veg að allar takmarkanir á tjáningarfrelsi verði að skýra þröngt, auk þess sem efni fréttarinnar hafi átt fullt erindi við almenning og verið mikilvægt innlegg í þá umræðu fjölmiðla um lánveitingar bankanna fyrir bankahrunið. Einnig verði ekki litið framhjá því að Pálmi sé opinber persóna sem þurfi að þola harkalegri gagnrýni en aðrir.

Þá sagði María að sönnunarfærsla væri ómöguleg án þess að komið sé upp um heimildarmenn, því geti Svavar ekki sannað ummælin sem fram komi í fréttinni. Ekki megi gera óhóflegar kröfur um sannleiksgildið, því það væri Svavari óþarflega íþyngjandi að vera gert að sanna ummælin. Þau teljist réttlætanleg, jafnvel þó þau teljist ekki sönnuð.

María benti svo á að ekki væri hægt að taka einstök ummæli út úr fréttinni heldur þurfi að horfa á samhengið og hvað sagt var í heild. Hvað varðar þau ummæli að fjármunirnir hafi gufað upp eða horfið í reyk verði að líta til þess, að þeir verði ekki greiddir til baka. Lánveitandinn fær þá ekki og því eru þeir tapaðir eða horfnir. Þá eigi að líta til þess að einhver einföldun geti fundist í fréttum, enda sé verið að setja fram flókna hluti á einfaldan hátt. Slíkt eigi hins vegar ekki að leiða til þess að fréttamenn fái á sig refsi- og meiðyrðakröfu.

Pálmi var einnig ósáttur við að í frétt Svavars hafi verið sagt að hann hafi tekið lánið þegar lántakandi var Fons. RÚV áréttaði raunar í kvöldfréttatíma kvöldið eftir, 26. mars 2010, að um Fons hafi verið að ræða, en í þessu ljósi vísaði María í samantekt um ummæli þar sem Pálmi hefur sjálfur samsamað sig sterklega félaginu Fons og verði því að þola að vísað sé til hans og Fons í sömu andrá.

Viðar Lúðvíksson, lögmaður Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur, sem var fréttalesari umrætt kvöld, og Páls Magnússonar, útvarpsstjóra benti að endingu á að ef fréttamaður hefur unnið faglega að frétt og hann í góðri trú verði hann ekki gerður bótaskyldur jafnvel þó fréttin sé röng. Þetta komi fram í dómaframkvæmd. Maríu Sigrúnu og Páli var stefnt til vara.

Að loknum málflutningi var málið dómtekið og dómsuppkvaðningardagur ákveðinn.  Hann er líkt og áður segir 22. mars nk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert