Tilkynningum til barnaverndarnefnda fækkaði um 1%

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Tilkynningum til barnaverndarnefnda fækkaði um 1% á síðasta ári samanborið við árið 2009. Fjöldi tilkynninga á árinu 2010 var 9.233, en 9.327 árið á undan.

Þetta kemur fram í upplýsingum frá Barnaverndarstofu. Flestar tilkynningar voru vegna áhættuhegðunar barna eða 47,3% árið 2010, en 46,3% árið 2009. Alls voru 30,5% tilkynninga árið 2010 vegna vanrækslu, en 34,7% árið 2009. Hlutfall tilkynninga um ofbeldi árið 2010 var 21.6%, en 18,5% árið 2009. Hlutfall tilkynninga árið 2010 vegna þess að heilsu eða lífi ófædds barns var stefnt í hættu var 0,6%, en 0,4% árið 2009.

Alls bárust 77 umsóknir um Fjölkerfameðferð (MST) á árinu 2010, en 56 umsóknir á árinu 2009. Fjölkerfameðferð (MST) snýr að fjölskyldum unglinga með fjölþættan hegðunarvanda sem kominn er á það alvarlegt stig að vistun unglings utan heimilis er talin koma til greina. Markhópurinn eru unglingar á aldrinum 12-18 ára og fer meðferðin fram á heimilum fólks. Nýtt MST meðferðarteymi tók til starfa í mars s.l. og fjölgaði þerapistum þá úr fjórum í sex.

Umsóknum um meðferðarheimili fækkaði á árinu 2010 miðað við árið á undan. Umsóknir voru 141 á árinu 2010 en 166 á árinu 2009. Umsóknum um fósturheimili fyrir börn fjölgaði úr 110 umsóknum í 113 umsóknir á umræddu tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert