Þrjú erlend lán íslenska ríkisins eru á gjalddaga á þessu ári, samtals að fjárhæð 775 milljónir evra, eða jafnvirði 123 milljarða króna. Gert er ráð fyrir endurfjármögnun lánanna í samræmi við stefnu ríkisins í lánsfjármögnun í erlendum gjaldmiðlum.
Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra á Alþingi til Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokks.
Í nóvember 2006 tók ríkissjóður 1 milljarðs evru lán og veitti andvirði lánsins til Seðlabanka Íslands til að styrkja gjaldeyrisforða bankans. Staða þess láns, eftir uppkaup skulda 2010, er 638 milljónir evra.
Í september 2008 tók ríkissjóður 300 milljóna evru lán í sama tilgangi. Staða þess láns eftir uppkaup 2010 er 75 milljónir evra.
Þá er 61,5 milljóna evra afborgun af 401,5 milljóna evra skuldabréfi sem ríkissjóður gaf út 2010 í tengslum við kaup á eignavörðum skuldabréfum Avens B.V.