Alls var 58 starfsmönnum sagt upp störfum um mánaðamótin í tveimur hópuppsögnum, 38 hjá Heilsustofnun NLFÍ og 20 hjá bifreiðaumboðinu Heklu.
Í umfjöllun um uppsagnirnar í Morgunblaðinu í dag segir Friðbert Friðbertsson, annar eigenda Heklu, gríðarlegan samdrátt á markaði fyrir nýja bíla hafa knúið á um endurskipulagningu fyrirtækisins og hagræðingu í rekstri.
Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heilsustofnunar NLFÍ, segir niðurskurð fjárveitinga til stofnunarinnar hafa kallað á niðurskurð, og launakostnaður sé stór hluti rekstrarkostnaðar. Hingað til hafi verið hægt að spara án þess að segja upp, en ekki sé lengur hægt að komast hjá uppsögnum.