Hríðarveður og hálka í kvöld og nótt

Vegagerðin varar við hálku á vegum.
Vegagerðin varar við hálku á vegum. mbl.is/RAX

Vegagerðin varar við því að búast megi við fljúgandi hálku á vegum í kvöld, einkum landið norðvestan- og norðanvert. Spáð er bleytu og krapa í nótt og þar sem snjór og klaki er fyrir á vegum verður afar hált. Hríðarveður verður á fjallvegum um tíma á sunnanverðum Vestfjörðum og eins á Steingrímsfjarðarheiði og víðar. Gera má ráð fyrir veðurhæð allt að 20-27 m/s, en veðrið gengur hratt til austurs.

Þegar líður á kvöldið mun hvessa, fyrst um landið vestanvert. Þar er jafnframt spáð slyddu og rigningu í nótt. Spáð er hvössum vindhviðum seint í kvöld og þar til snemma í fyrramálið á norðanverðu Snæfellsnesi, eða allt að 40-50 m/s.

Hálkublettir eða snjóþekja eru víða á Suðurlandi, einkum í uppsveitum.
Á Vesturlandi er snjóþekja, hálka eða hálkublettir.
Á Vestfjörðum er hálka, snjóþekja eða hálkublettir.
Á Norðvesturlandi er hálka og hálkublettir.
Á Norðausturlandi er hálka og skafrenningur. Þæfingur er á Hólasandi.
Á Austurlandi er hálka á fjallvegum, hálkublettir mjög víða á láglendi.
Á Suðausturlandi  eru vegir auðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert