Kennari áminntur fyrir bloggfærslu

Flensborgarskóli.
Flensborgarskóli.

Skólastjórn Flensborgarskóla hefur áminnt kennara skólans formlega fyrir ummæli sem hann lét falla á bloggsíðu sinni í tengslum við níumenningamálið svonefnda.

Þetta kemur fram á vef skólans. Málið hefur verið talsvert til umræðu síðustu daga en Snorri Páll Jónsson, einn níumenninganna, vakti í grein í Fjarðarpóstinum athygli á því, að Baldur Hermannsson, eðlisfræðikennari
við Flensborgarskólann, hefði látið nokkur orð falla um dóm héraðsdóms í málinu. Í kjölfarið hefðu spunnist upp umræður á síðunni þar sem annar bloggari, Vilhjálmur Eyþórsson, skrifaði að setja ætti sakborningana í gapastokk, grýta og sparka í, koma fyrir í búri og henda lyklunum.

Við þetta bætti Baldur: „Og sýna kellingunum kynferðislega áreitni, ekki má gleyma því.“

Daginn eftir að grein Snorra Páls birtist var fjallað um hana á vef Flensborgarskóla. Þar sagði m.a. að stjórnendur Flensborgarskólans hörmuðu að Snorri væri að draga sinn gamla skóla inn í persónulegar deilur hans og Baldurs Hermannssonar. Skólinn tæki á engan hátt afstöðu í málinu að öðru leyti en að minna starfsmenn sína, nemendur og aðra, á að gæta hófs í orðum sínum og framgöngu.

Á vef skólans birtist síðan í gær löng tilkynning þar sem segir, að stjórnendur skólans hafi brugðist mjög hart við í þessu máli innan skólans, en hafi kosið að fá að vinna það þar og ekki í fjölmiðlum eða á bloggsíðum. Þeir vilji vanda vinnubrögð og gæta fyrst og síðast að hag hópsins sem við skólann starfar.

Skólameistari hafi t.d. sent til foreldra bréf þar sem segir m.a.: „Að hálfu skólans eru þau ummæli sem þarna eru höfð eftir fordæmd og skiptir engu mál hvort þau eru sett fram í gamni eða alvöru. Þetta mál hefur verið tekið upp við viðkomandi starfsmann eins og önnur mál sem beinast að einstaka starfsmönnum og verður unnið þar en ekki í gegnum fjölmiðla.“ 

„Þar sem stjórnendur hafa verið sakaðir um að taka undir orð starfsmannsins ætti nú að vera ljóst að svo er ekki. Þá er það fullkomlega óviðeigandi að gefa í skyn, á grundvelli fyrrgreindrar fréttar, að kennarar skólans fái að sýna nemendum sínum kynferðislega áreitni, eða að hvatt sé til slíks eða annars kynferðislegs ofbeldis í starfi skólans, með einum eða öðrum hætti. Slíkt orðfæri hlýtur að dæma sig sjálft. Þeir sem þekkja til við þennan skóla, vita hvað hann stendur fyrir og þekkja hið faglega starf sem hann er annálaður fyrir," segir á vef skólans.

Vefur Flensborgarskóla

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert