Kvarta til Samkeppniseftirlitsins

Ekki eru allir neytendur ánægðir með þessa breytingu.
Ekki eru allir neytendur ánægðir með þessa breytingu. mbl.is/Þorkell

Samkeppniseftirlitið hefur fengið ábendingar frá óánægðum neytendum um breytingar á verðmerkingum á ýmsum kjötvörum í matvöruverslunum, en breyttar reglur tóku gildi í gær. Samkeppniseftirlitið hefur komið þessum ábendingum á framfæri við Neytendastofu.

Í breytingunum felst að kjötvinnslufyrirtæki hætta að forverðmerkja fyrir matvöruverslanir pakkningar í staðlaðri þyngd, þ. á m. flestar tegundir af pylsum, tilbúnum réttum og flestar áleggstegundir.

Í pistli frá Páli Gunnar Pálssyni, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, segir hann að Samkeppniseftirlitið leggi áherslu á að vel takist til um breytingarnar. „Ábyrgðin á því hvílir á þeim fyrirtækjum sem í hlut eiga. Gera verður ráð fyrir því að þau leitist við að útfæra breytingarnar þannig að neytendur verði ekki fyrir óþægindum. Þrátt fyrir þetta hefur Samkeppniseftirlitið fengið ábendingar frá óánægðum neytendum um verðmerkingar í aðdraganda breytinganna. Samkeppniseftirlitið hefur komið þessum ábendingum á framfæri við Neytendastofu.

Samkeppniseftirlitið hefur einnig mælst til þess við hagsmunasamtök fyrirtækja og neytenda og stjórnvöld á þessu sviði að fylgja breytingunum eftir með hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Samkeppniseftirlitið væntir þess að neytendur þurfi þess vegna ekki að verða fyrir óþægindum vegna breytinganna. Þvert á móti eiga þær að leiða til aukinnar samkeppni milli verslana og heilbrigðari samkeppnisaðstæðna til lengri tíma litið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert