Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag að Myoko Watai væri lögerfingi Bobby Fischers enda hefði hún verið gift honum þegar hann lést. Frændur Fischers höfðu borið brigður á hjónabandið. Þeir voru dæmdir til að greiða Myoko rúmlega 6,6 milljónir í málskostnað.
Miyoko Watai krafðist þess að hún yrði viðurkenndur lögerfingi Bobby Fischer en systrasynir Fischers, Alexander Gary Targ og Nicholas William Targ, kröfðust þess að því yrði hafnað.
Eldri systir Fischers, Joan Fischer Targ, fædd 8. júlí 1937 en er nú látin. Hún giftist Russel Targ og eignuðust þau þrjú börn, Alexander og Nicholas og Elizabet F. Targ, sem nú er látin. Elizabeth var barnlaus en lét eftir sig eiginmann. Alexander og Nicholas kváðust vera nánustu ættingjar Bobby Fischers.
Miyoko Watai, sem er lyfjafræðingur að mennt og forseti japanska skáksambandsins, kvaðst hafa kynnst Bobby Fischer í Japan árið 1973 en hann var þá um þrítugt en hún 28 ára gömul. Hún lýsti því fyrir dómnum að í kjölfarið hafi tekist vinskapur með þeim og þau haldið sambandi með bréfaskriftum, símtölum og heimsóknum. Fischer hafi m.a. boðið henni að fylgjast með einvígi sínu og Spassky árið 1992, en það fór fram í Júgóslavíu.
Eftir einvígið hefðu tekist með þeim kærleikar og árið 2000 hafi Fischer komið til Tókýó í Japan, flutt inn til hennar og þau í raun verið í hjúskap næstu fjögur ár. Þeim hafi hins vegar verið í mun að halda einkalífi sínu frá fjölmiðlum. Eftir að Fischer var handtekinn árið 2004 hafi Fischer talið að nauðsynlegt væri að opinbera samband þeirra og ganga jafnframt í hjúskap. Hjúskapurinn hafi verið formlegar samþykktur í ársbyrjun 2005, eftir nokkrar tafir.
Miyoki Watai fylgdi Fischer hingað til lands sama ár. Næstu þrjú ár hafi hún komið yfir 20 sinnum til Íslands til að dveljast hjá honum og þess á milli verið í miklum samskiptum.
Eftir að Fischer lést kröfðust Targ-bræðurnir opinberra skipta á dánarbúi Fischers en því var hafnað á þeim grundvelli að þeir væru ekki erfingjar Fischers. Málið hefur þvælst töluvert um í réttarkerfinu síðan þá og m.a. oftar en einu sinni komið til kasta Hæstaréttar. Samkvæmt dómi Hæstaréttar frá því í desember 2009 var talið að ekki hefði verið færð fram fullnægjandi sönnun þess að Miyoko Watai og Fischer hefðu gengið í hjónaband og var í kjölfarið skipaður skiptastjóri. Málinu var aftur skotið til dómstóla í ársbyrjun 2010 til að skera úr um hvort Watai og Fischer hefðu í raun verið í hjónabandi við andlát Fischers.
Targ-bræðurnir bentu meðal annars á á að vafi léki á hvort hjúskaparskjöl Watai og Fischers hefðu verið skráð með fullnægjandi hætti í Japan. Sönnunarbyrði á þessu atriði sé á hennar herðum. Þá hefði hjúskaparstaða Fischers verið skráð sem ótilgreind í þjóðskrá og hafi haldist svo til dauðadags hans. Það bendi til þess að hann hafi ekki talið sig vera í hjúskap.
Eitt vitni kom fyrir dóminn, John Bosnitch, Kanadamaður af júgóslavnesku bergi brotinn. Hann starfaði fyrir The National Broadcaster í Japan þegar Fischer var handtekinn þar í landi. Hann greindi frá því að Fischer hefði sagt honum að þau væru hjón í skilningi engilsaxnesks venjuréttar (common law couple). Fischer hefði síðan útbúið skjöl til að staðfesta hjúskap þeirra Watai og Fischers. Nokkrum mánuðum seinna hefði borist staðfesting á að skráningu hjúskaparins væri lokið.
Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur er komist að þeirri niðurstöðu að skjöl sem Miyoko Watai lagði fram sýndu með fullnægjandi hætti að hún og Fischer hefðu orðið hjón 6. september 2004. Var hún talin hafa sýnt fram á hún hefðii verið í hjúskap með Fischer þegar hann lést og sé því lögerfingi hans. Voru Targ-bræðurnir dæmdir til að greiða henni 6,6 milljónir í málskostnað.
Ingveldur Lúðvíksdóttir kvað upp dóminn. Árni Vilhjálmsson hrl. flutti málið fyrir hönd Watai en Guðjón Ólafur Jónsson hrl. fyrir hönd Targ-bræðra