Ný skjöl réðu úrslitum

Bobby Fischer
Bobby Fischer Rax / Ragnar Axelsson

Ágreiningurinn í máli Targ-bræðra og Miyoko Watai laut að því hvort stofnast hefði til gilds hjúskapar milli hennar og Bobby Fishcers. Í úrskurði héraðsdóms í dag er vísað til tveggja nýrra skjala frá Japan og eru þau sögð hafa nægt sem sönnun þess að Miyoko og Fischer hafi verið gift.

Skjölin sem um ræðir eru annars vegar afrit af sameiginlegri tilkynningu Miyoko og Fischer um hjúskap sem þau lögðu inn hjá skrifstofu fjölskyldumála í Ota-umdæmdi í Tókýó 6. september 2004 og var afgreidd 28. janúar 2005. Hins vegar var lagt fram nýtt vottorð úr fjölskylduskrá Watai frá því í maí 2010. Það er samhljóða vottorði úr fjölskylduskrá sem var lagt fram í fyrra dómsmáli sömu málsaðila en á það hefur verið bætt dánardægri Fischers. Með þessum tveimur skjölum þótti dómnum sem komin væri fram fullnægjandi sönnun þess að til hjúskaps hafi stofnast milli Watai og Fischer í september 2004.

Tadayoshi Matsubara gaf út fjögur vottorð

Í dómnum er einnig bent á að Tadayoshi Matsubara, umdæmisstjóri Ota-umdæmis í Tókýó, hafi í tvívang, í apríl 2009 og í júní 2010, gefið út staðfestingu þess að hjúskapartilkynning Watai og Roberts hafi verið samþykkt af yfirvöldum. Hann hafi einnig í tvígang gefið út vottorð úr fjölskylduskrá Watai þar sem hið sama kemur fram. Síðarnefndu skjölin hafi utanríkisráðuneyti Japans vottað sérstaklega.

Í úrskurðinum kemur fram að af hálfu Targ-bræðra hafi sannleiksgildi þessara yfirlýsinga verið véfengt. Það hvíli á bræðrunum að sýna fram á að svo sé, en það hafi þeir ekki gert.

Skjölin voru ekki lögð fram í fyrra máli

Bræðurnir byggðu einnig á því að Hæstiréttur hafi með dómi sínum í desember 2009 tekið afstöðu til sönnunargildis vottorðs úr fjölskylduskrá Watai og vottorðs um samþykki skráningar á hjúskap Fischers og Watai.

Í dómi Hæstaréttar var fallist á kröfu bræðranna um opinber skipti en kröfu Watai um að hún fengi yfirráð yfir búinu enda eftirlifandi ekkja Fischers. Dómurinn byggði á því að Watai hefði aðeins lagt fram hjónavígsluvottorð en á því hefði komið fram að það byggði á afriti opinberrar fjölskylduskrifstofu. Bræðurnir bentu á að gögn sem hlytu að vera grundvöllur þessarar skráningar hefðu ekki verið lögð fram og ekki skýrt með fullnægjandi hætti hvað stæði í vegi fyrir því. Því lagði Hæstiréttur til grundvallar að ekki hefðu verið færðar fullnægjandi sönnur á að Watai hefði gengið í hjónaband með Fischer.

 Í úrskurði héraðsdóms frá í dag segir að þessi vottorð hafi nú fengið stuðning af nýju skjali, tilkynningu Watai og Fischers um hjúskap. Það skjal nægi, eitt og sér til sönnunar á því að japönsku yfirvöld hafi fallist á hjúskap þeirra Watai og Fischer. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert