Goðafoss er nú kominn vel áleiðis til Óðinsvéa, þar sem skipið mun verða tekið í slipp. Áhyggjur sænskra yfirvalda af skaða af völdum olíuleka eru að öllum líkindum ástæðulausa, að sögn Ólafs Williams Hand, upplýsingafulltrúa Eimskips.
Ólafur segir að reiknað sé með að Goðafoss verði kominn á áfangastað á Fjóni í Danmörku annaðhvort seint á fimmtudagskvöldið eða snemma á föstudagsmorgun.
„Menn héldu að skipið læki og þess vegna vorum við beðin um að hægja ferðina niður í rúmar tvær sjómílur. En svona stórt skip getur ekki siglt svo hægt og þess vegna er það dregið af dráttarbáti,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is.
„Sænska strandgæslan hafði samband í morgun og sagði olíulekann talsvert minni en óttast var. Um 60-70 lítrar af olíu hafa verið hreinsaðir úr sjónum við Svíþjóð og menn hafa ekki lengur áhyggjur af því að olían berist að landi. Það er til dæmis ekki talin hætta á að olían leggist á fugla,“sagði Ólafur.
Hann sagði að að öllum líkindum væri um að ræða olíuklepra sem hefðu fests við skipið og væru nú að losna undan því, en skipið hefði legið „í olíubaði“ í næstum því viku.
Ólafur vildi ítreka að Eimskip gætti fyllstu varúðar varðandi siglingu Goðafoss.
„Norsk strandgæsluyfirvöld fóru um borð í skipið, 2-3 tímum áður en við fórum af stað. Þeir rannsökuðu allt, ræddu við skipverja og gáfu síðan út brottfaraheimild. Ef norsk yfirvöld hefðu talið að það væri einhver möguleiki á mengunarhættu, þá hefði skipið aldrei fengið að fara af stað. Það var líka búið að tæma alla olíu úr tönkum skipsins.“
Að sögn Ólafs er Goðafoss fylgt af dönsku umhverfigæsluskipi, sem er á vegum dönsku strandgæslunnar. „Skipið hefur verið í humátt á eftir Goðafossi í rúmlega sólarhring og hefur ekki séð neina ástæðu til að gera athugasemdir.“
Ólafur segir að sú olía sem hefur fundist í sænskum sjó verði rannsökuð til að komast að því hvort hún komi frá Goðafossi. „Við tökum að sjálfsögðu þátt í þeirri rannsókn. Ef þetta er úr Goðafossi, þá tökum við auðvitað ábyrgð á því.“