Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) óttast að innanríkisráðherra kunni „að setja á hjálmaskyldu fyrir fullorðna og jafnvel einnig skylda þá til að klæðast endurskinsfatnaði en hann færi heimild til þess skv. nýju frumvarpi til umferðarlaga.
Landssamtökin benda m.a. á að þar sem hjálmaskylda hafi verið tekin upp hafi hjólreiðamönnum fækkað og hjólreiðamönnum sé ekki meiri hætta búin af höfuðáverkum en öðrum vegfarendum.
Í núgildandi umferðarlögum segir: „Ráðherra getur sett reglur um notkun hlífðarhjálms við hjólreiðar.“ Samkvæmt frumvarpinu er ráðherra veitt heimild til að setja ákvæði í reglugerð um öryggis- og verndarbúnað hjólreiðamanna og annarra óvarinna vegfarenda."
Í greinargerðinni með frumvarpinu segir að: „Hér gæti t.d. verið um að ræða frekari útfærslu á notkun hlífðarhjálma við hjólreiðar, svo og um endurskinsfatnað og annan búnað til að gera gangandi og hjólandi vegfarendur sýnilegri í umferðinni og um kröfur til slíks búnaðar.“
Árni Davíðsson, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna (LHM), segir að innanríkisráðherra gæti í sjálfu sér, upp á sitt einsdæmi og án alls samráðs, ákveðið að skylda hjólreiðamenn til að vera með hjálm og í endurskinsfötum. Hann gæti í raun einnig skyldað gangandi vegfarendur til að klæðast endurskinsvestum. „Þetta er ótrúlega opin heimild,“ segir hann. Standi vilji löggjafans til að koma á hjálmaskyldu væri hreinlegra að gera það með lagasetningu en ekki reglugerð enda sé aðkoma almenning að reglugerðarsetningu ekki tryggð.
Frumvarp til umferðarlaga hefur verið lengi í smíðum og er nú til meðferðar á Alþingi í annað sinn. Svipað ákvæði um hjálmaskyldu var í fyrra frumvarpi og lýstu LHM strax yfir að þau væru algjörlega andvíg hjálmaskyldu. Árni segir að samtökin hafi skilað inn þremur umsögnum um málið, tveimur til ráðuneytisins og einnig til samgöngunefndar Alþingis. Samtökinu eru með þau fjórðu í smíðum núna. Ráðuneytið hafi ekki hlustað á rök LHM hingað til og því sé ákvæðið enn inni í frumvarpinu.
Árni segir að þar sem hjálmaskylda hafi verið innleidd hafi hún oftar en ekki leitt til minni hjólreiða. Fækki hjólreiðamönnum dragi úr öryggi hjólreiðamanna. „Öryggi hjólreiðamanna og gangandi vegfarenda er best tryggt ef margir ganga eða hjóla,“ segir hann. Stór hluti af skýringunni sé að ökumenn búist þá frekar við hjólreiðamönnum og gangandi vegfarendum. Fækkun hjólreiðamanna leiði einnig til verri lýðheilsu.
Árni bendir á að þótt hjálmar geti vissulega varið hjólreiðamenn gegn höfuðáverkum þá eigi hið sama í raun við um gangandi vegfarendur. Með öðrum orðum þá væru jafn sterk rök fyrir hjálmaskyldu gangandi eins og hjólandi. „Hjólreiðamönnum er ekki hættara við höfuðmeiðslum en öðrum vegfarendum og slysatölur benda ekki til þess að hjólreiðamenn séu í meiri hættu en gangandi, raunar þveröfugt,“ segir hann. Frá og með árinu 1998 hafi 275 vegfarandur látist í slysum á Íslandi, þar á meðal tæplega 30 gangandi vegfarendur. Enginn hjólreiðamaður hafi látist í slysi á sama tímabili.
Fjölmargir aðilar hafa skilað inn umsögn um frumvarpið á fyrri stigum.
Ekkert er fjallað um hjálmanotkun eða hjálmaskyldu í umsögnum Landlæknis, Félags íslenskra endurhæfingalækna eða í umsögn Taugalæknafélags Íslands.
Í umsögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er lagt til að öllum þeim sem eru á reiðhjóli, sama á hvaða aldri, verði gert skylt að nota hlífðarhjálm og að sektir liggi við ef út af er brugðið. Ekkert er fjallað um mögulega sektarfjárhæð og í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir sektarheimild.
Lögreglan bendir á að almenn hjólanotkun hafi aukist, m.a. með tilkomu hjólreiðastíga. Með aukinni umferð aukist líkur á óhöppum. „Þá hafa hjólreiðamenn heimild til að hjóla í almennri umferð og ætti það sama því að gilda um um þá og bifhjólamenn varðandi hjálmanotkun,“ segir í umsögn lögreglu. Þá er bent á að notkun fullorðinna á reiðhjólahjálmum getur virkað sem hvatning til banra um að nota hjálma einnig. „Af slíkri hvatningu veitir ekki. Erfitt er að sjá rök fyrir því að böörn noti reiðhjólahjálm en fullorðnir ekki,“ segir í umsögn lögreglunnar. Hjálmaskylda er fyrir börn 15 ára og yngri.
Rannsóknarnefnd umferðarslysa segir í sinni umsögn að rannsóknir hafi sýnt að 75% banaslysa hjólreiðafólks verði vegna höfuðáverka og vísa til skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Til mikils sé að vinna að koma í veg fyrir þessa skaðlegu áverka. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á varnaráhrifum hjólreiðhjálma/hlífðarhjálma sýni að þeir dragi úr líkum á alvarlegum höfuð- og heilaáverkum um 69-79%. „Varnaráhfrif hjálma eru þau sömu fyrir alla aldurshópa. Að mati RNU ætti að skylda allt hjólreiðafólk til að nota hlífðarhjálma,“ segir í umsögn nefndarinnar.
Árni tekur fram að hann sé alls ekki á móti hjálmanotkun. Sjálfsagt sé að hvetja til hjálmanotkunar, veita upplýsingar um hjálmanotkun og annan öryggisbúnað. Slíkt verði þó að byggja á þekkingu og hófsemd. Hjólreiðar séu síst hættulegri iðja en að ganga eða aka. Hverjum og einum hjólreiðamanni sé vel treystandi til að haga sér með ábyrgum hætti og hafa vit fyrir sér og sínum. Með því að setja á hjálmaskyldu sé með vissum hætti verið að færa ábyrgðina frá ökumönnum yfir á hjólreiðamenn. Auðvelt sé að sanna að hjólreiðamaður hafi ekki verið með hjálm en erfiðara að sanna að ökumaður sem ekur á hjólreiðamann hafi t.d. verið að kveikja sér í sígrettu, tala í símann, horfa eitthvað annað eða ekið óvarlega. Þá hafi áróður fyrir hjálmanotkun um of byggst á hræðsluáróðri, þótt það hafi reydnar færst til betri vegar í seinni tíð, m.a. vegna ábendinga frá LHM.
Árni bendir sömuleiðis á að Samtök evrópskra hjólreiðamanna leggist gegn hjálmaskyldu og það geri einnig hollensk yfirvöld. Í Hollandi séu hjólreiðar mestar í Evrópu, hjálmanotkun minnst og slysatíðni hjólreiðamanna með því minnsta sem þekkist. Norska vegagerðin hafi sömuleiðis lagst gegn hjálmaskyldu á börn í Noregi.
Hér má sjá myndband af hjólreiðum í Hollandi en af myndbandinu að dæma eru allir hjólreiðamenn þar með eindæmum hamingjusamir.