Níu starfsmönnum hjá Símanum hefur verið sagt upp störfum, en Síminn segir að þeir hafi brotið starfsreglur með því að breyta þjónustuleiðum við viðskiptavini án þess að hringja í þá. Starfsmennirnir fengu bónusgreiðslu fyrir hverja breytingu sem þeir gerðu, en þeim bar að hringja í viðskiptavini og fá samþykki þeirra fyrir breytingunni.
Margrét Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir að fjórir þessara starfsmanna hafi verið fastráðnir, en hinir hafi verið í tímavinnu. Hún segir að við reglubundið eftirlit hjá Símanum hafi komið í ljós að starfsmennirnir hafi ekki fylgt starfsreglum.
Í janúar setti Síminn af stað úthringiverkefni sem gekk út á að starfsmenn höfðu samband við viðskiptavini símleiðis og buðu þeim breytingu á þjónustu í fjarskiptum. Starfsmenn fengu bónusgreiðslu fyrir hverja breytingu sem var gerð. „Þessir starfsmenn slepptu því að hringja vegna þjónustubreytinga og fengu bónusgreiðslu. Þetta eru nokkur hundruð breytingar sem hafa verið gerðar með þessum hætti,“ sagði Margrét.
Margrét sagði að Síminn liti svo á að starfsmenn hefðu gerst sekir um brot á ráðningarsamningi og því yrði þeim ekki greidd laun út uppsagnarfrest. Síminn vildi hins vegar ekki brjóta á rétti starfsmanna og hefði bent þeim sem væru ósáttir að hafa samband við stéttarfélag sitt.