Thor Vilhjálmsson látinn

Thor Vilhjálmsson.
Thor Vilhjálmsson. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Thor Vilhjálmsson rithöfundur er látinn 85 ára að aldri. Thor fæddist 12. ágúst 1925 í Edinborg í Skotlandi. Foreldrar hans voru Kristín Thors húsmóðir og Guðmundur Vilhjálmsson forstjóri Eimskipafélags Íslands.

Thor lauk stúdentsprófi frá MR 1944 og stundaði nám við norrænudeild HÍ 1944-46. Hann stundaði náð við Háskólann í Notthingham í Englandi 1946-47 og Sorbonne-háskóla í París 1947-1952.

Thor var formaður Rithöfundasambands Íslands 1959-60 og 1966-68.  Hann var forseti Bandalags íslenskra listamanna 1975-1981. Hann sat í framkvæmdastjórn Listahátíðar 1976-1980. Hann sat í stjórn Alliance Franqaise árum saman. Thor var einn af stofnendum menningartímaritsins Birtings 1955 og sat í ritstjórn þess til 1968. Hann var formaður Júdófélags Reykjavíkur í nokkur ár. Hann var forseti íslenska PEN-klúbbsins. Thor var gerður að heiðursdoktor við Háskóla Íslands á síðasta ári.

Fyrsta bók Thors, Maðurinn er alltaf einn, kom út árið 1950. Síðan skrifaði hann fjölda bóka, skáldsögur, ljóð, leikrit og greinasöfn. Auk þess hafa komið út eftir hann þýðingar úr ýmsum málum, m.a. frönsku, ensku, spænsku, portúgölsku og ítölsku. Hann hefur einnig fengist við myndlist, haldið málverkasýningar og skrifað um íslenska myndlistarmenn, þar á meðal bækur um Jóhannes Kjarval og Svavar Guðnason. 

Árið 1992 sendi Thor frá sér fyrsta bindi endurminninga sinna, Raddir í garðinum og hélt áfram á sömu braut með bókinni Fley og fagrar árar, sem út kom 1996. Thor var þrisvar fulltrúi Íslands í bókmenntaverðlaunasamkeppni Norðurlandaráðs og hlaut verðlaunin árið  1987 fyrir skáldsöguna Grámosinn glóir. Hann hefur tvisvar hlotið bókmenntaverðlaun DV. Árið 1992 hlaut Thor bókmenntaverðlaun sænsku akademíunnar fyrir ritstörf. Hann hefur fengið fleiri erlendar viðurkenningar, m.a. er hann heiðursborgari í franska bænum Rocamadour, hefur hlotið frönsku orðuna Chévalier de l'art et des lettres og ítalska orðu, Cavaliere dell'Ordine dello Merito.

Eftirlifandi eiginkona Thors er Margrét Indriðadóttir fyrrverandi fréttastjóri. Þau eignuðust tvo syni, Örnólf og Guðmund Andra.

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka