Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, sagði á Alþingi í dag, að aðrir þingflokkar hefðu undirritað vantraust á þá fulltrúa sína í landskjörstjórn, sem sögðu af sér nýlega, með því að tilnefna þá ekki á ný til setu í nefndinni.
Sagði Árni Þór í umræðu um störf þingsins, að þingflokkur VG hefði ákveðið að tilnefna Ástráð Haraldsson á ný í landskjörstjórn til að lýsa yfir trausti á hann.
Nokkur kurr varð í þingsalnum vegna þessara orða Árna Þórs. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að þingflokkur sjálfstæðismanna hefði ekki með nokkru móti verið með tilnefningu sinni í nýja landskjörstjórn að lýsa yfir vantrausti við fyrri fulltrúa flokksins þar.
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í umræðunni að Alþingi hefði orðið á í messunni við kjör í landskjörstjórn vegna þess að skipan í stjórnina hafi ekki verið í samræmi við jafnréttislög.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, vakti athygli á að um hefði verið að ræða kosningu, þar sem þingflokkar tilnefndu sína fulltrúa, en ekki skipan.