Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að aðstæður nú væru allt aðrar en árið 2006 þegar hún var í stjórnarandstöðu og skoraði á þáverandi ríkisstjórn að lækka álögur ríkisins á eldsneyti.
„Árið 2006 var ríkiskassinn fullur af peningum," sagði Jóhanna. Hún sagði að árið 2006 hefði ríkissjóður verið rekinn með miklum afgangi og skattar ríkisins verið í sögulegu hámarki sem hlutfall af landsframleiðslu.
Jóhanna sagði, að engu að síður væri ástæða til að taka þetta mál upp enda væru áhrif af hækkun heimsmarkaðsverðs á eldsneyti verulegt áhyggjuefni.
Það var Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sem minnti Jóhönnu á ummæli hennar um eldsneytisverðið árið 2006. Hann sagði að nú verði verðið mun hærra en árið 2006 og spurði Jóhönnu hvort hún teldi ekki ástæðu til að grípa til aðgerða strax.
Spurði Bjarni hvort stjórnvöld ætluðu að haga því þannig, að hærra heimsmarkaðsverð á olíu og hærra útsöluverð á Íslandi verði sérstakur tekjuauki á Íslandi, einhverskonar matarhola fyrir ríkisstjórnina.
Jóhanna sagði að full ástæða væri til þess að skoða heildarmyndina og hvaða áhrif verðhækkanirnar hefðu haft og hvort fólk sé farið að spara við sig í akstri. Ekki væri hins vegar hægt að lifa með það að vera með sveiflur fram og til baka með tímabundinni lækkun á eldsneytissköttum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, vísaði til fréttar Morgunblaðsins í dag, um að verðtryggð lán íslenskra heimila hefðu hækkað um 6 milljarða króna síðasta hálfa mánuðinn vegna hækkana á olíu- og bensínverði.