Lítil og sæt stóriðja

Hverir á Þeistareykjum í Þingeyjarsýslu.
Hverir á Þeistareykjum í Þingeyjarsýslu.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í dag menn ættu að gleyma stóru álversdraumunum í Þingeyjarsýslu og leggja áherslu á verksmiðjur og starfseiningar, sem nýta minni orku, „stefna eins og sumir segja á litlu sætu stóriðjuna," sagði Mörður.

Þetta kom fram í umræðu utan dagskrár, sem fór fram að ósk Marðar um  framkvæmdir í Þingeyjarsýslu í ljósi sameiginlegs umhverfismats, sem farið hefur fram. Sagði Mörður, að umhverfismatið sýndi, að hugmyndir um framkvæmdir í Þingeyjarsýslu hafi verið óraunhæfar og hefðu spillt mjög landkostum og framtíðarmöguleikum í héraðinu. Sagði Mörður, að álver upp á 300 þúsund tonn væri úti samkvæmt umhverfismatinu enda óábyrg pólitík að halda áfram í þessa átt eftir þróun síðustu ára.

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, sagði að áhugi á Þingeyjarsýslum hefði farið vaxandi að undanförnu og að Landsvirkjun væri í virkum viðræðum við 6-8 mögulega orkukaupendur. Þetta væru til dæmis metanólverksmiðja í nágrenni Kröflu og fyrirtæki í málmframleiðslu og efnavöruframleiðslu.

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði, að  lítið og sætt eða eitthvað annað dygði ekki til uppbyggingar á Húsavík. Það þyrfti að lágmarki 250 megavatta orkunotanda á Húsavík til að standa undir kostnaði við að endurnýja raflínuna þangað frá orkusvæðunum. 

Þá sagði Kristján að hið sameiginlega umhverfismat hefði verið tóm della og vitleysa, sett fram eingöngu til þess að bregða fæti fyrir álverksverkefni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert