Á sama tíma og Óslóarlögreglan réði ráðum sínum um hvort senda ætti meðlimi MC Iceland úr landi í Noregi, unnu meðlimir klúbbsins á Íslandi að því nú síðdegis að skipta um skilti á húsnæði klúbbsins í Hafnarfirði. Skilti Hell's Angels er nú komið upp sem þýðir að Íslendingarnir eru orðnir fullgildir Vítisenglar.
Ljóst er að Einar Ingi Marteinsson formaður MC Iceland og félagar hans sjö, sem eru í haldi lögreglu á Gardemoen flugvell, munu ekki verða viðstaddir inntökuathöfn Hell´s Angels í Noregi, sem til stóð að yrði haldin um helgina til að ljúka löngu umsóknarferli Íslendinganna í klúbbinn. Þeir verða sendir burt um helgina, en það dugir þó ekki til að koma í veg fyrir starfsemi Vítisengla hér á landi.
Tilraunir Hell's Angels til að ná fótfestu á Íslandi má rekja um áratug aftur í tímann hið minnsta, samkvæmt Ríkislögreglustjóra. Árið 2009 fékk MC-Iceland, þá Fáfnir, viðurkenningu sem „stuðningsklúbbur“ Hell´s Angels sem er undanfari umsóknar um fulla aðild.
Nú, um tveimur árum síðar, eru höfuðstöðvar MC Iceland eru nú orðnar höfuðstöðvar Hell's Angels á Íslandi, ef marka má merkinguna á húsi þeirra sem sett var upp í dag. Skiltið er skreytt hauskúpunni sem er opinbert merki Hell's Angels um allan heim. Sem fullgildir meðlimir geta meðlimir MC Iceland vænst stuðnings Hell's Angels samtakanna í nágrannalöndunum í starfsemi sinni.