„Hlutverk Sogns eins og annarra geðdeilda er að endurhæfa fólk til að geta sent það aftur út í samfélagið og það gerist ekki með því að loka það inni," segir Sigurður Páll Pálsson, yfirlæknir á réttargeðdeildinni Sogni. Gunnar Rúnar Sigurþórsson, sem játaði að hafa myrt Hannes Þór Helgason á síðasta ári en úrskurðaður ósakhæfur, fór í gær í klippingu á Selfossi í fylgd starfsmanns frá Sogni og gagnrýndi fjölskylda Hannesar það harðlega á Bylgjunni síðdegis.
Sigurður segir að á Sogni njóti vistmenn þeirra mannréttinda að fá að hreyfa sig. Glæpamenn sem dæmdir eru ósakhæfir og vistaðir á Sogni fái þar meðhöndlun sem byggi á endurhæfingu, og hluti af endurhæfingu sé að fara í fylgd gæslumanns að versla nauðsynjar, í klippingu og annað. Sumir séu á stofnuninni í marga mánuði án þess að fá að fara út, en aðrir fari oftar og það sé háð mati geðlækna hverju sinni. Vistmenn fari aldrei einir heldur alltaf í fylgd starfsmanna.
Fram kemur á Pressunni að faðir Hannesar Þórs Helgasonar var staddur á Selfossi degi á undan Gunnari Rúnari og fjölskyldunni þyki erfitt að hugsa til þess að geta rekist á morðingja hans úti á götu. Aðspurður hvort reyna beri að forðast slíkar aðstæður segir Sigurður að erfitt sé að koma í veg fyrir að slíkt gerist.
„Það er hluti af okkar reglum, með öryggi bæði starfsmanna og sjúklinganna í huga, að hafa lítinn sem engan fyrirvara á þessum ferðum. Við getum ekki sent út tilkynningar um hvenær verður farið með vistmenn í klippingu." Þá segir Sigurður það vissulega geta verið erfitt fyrir fólk að mæta misgjörðarmanni sínum úti á götu en slíkt geti því miður alltaf hent, s.s. eftir að dæmdum mönnum er sleppt úr fangelsi.