Forstöðumaður Kvíabryggju handtekinn

Fangelsið á Kvíabryggju.
Fangelsið á Kvíabryggju. mbl.is/Gunnar

Fyrrverandi forstöðumaður fangelsisins á Kvíabryggju var handtekinn í dag. Hann er grunaður um að hafa misfarið með fjármuni stofnunarinnar og er rannsókn málsins í höndum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Húsleit var jafnframt framkvæmd á heimili mannsins á Grundarfirði í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu verður einnig rætt við starfsmenn Kvíabryggju í tengslum við málið. Þá verður forstöðumanninum sleppt að lokinni skýrslutöku.

Aðgerðir lögreglu voru umfangsmiklar og hófust þær í morgun. Sex starfsmenn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu tóku þátt í þeim, en þeir nutu aðstoðar lögreglunnar á Snæfellsnesi. Lagt var hald á ýmis gögn og muni, að sögn lögreglu.

Forstöðumaðurinn, sem var skipaður í stöðuna snemma árs 2006, var leystur tímabundið frá störfum vegna rannsóknar málsins. 

Í vetur vakti Fangelsismálastofnun athygli dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins á aðfinnslum sem hún gerði við við fjárreiður og bókhald fangelsisins á Kvíabryggju.

Ráðuneytið ræddi við forstöðumann fangelsisins og var í framhaldi óskað eftir því að Ríkisendurskoðun færi yfir bókhaldið. Að sögn lögreglu var skýrslu Ríkisendurskoðunar bætt við ákæruna sem var gefin út á hendur forstöðumanninum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka