„Ég ímynda mér að það verði ekki þessi yfirsýn sem nauðsynleg er og þessi tengsl og þessi samskipti og nándin við nemendur og starfsfólk,“ segir Guðni Kjartanssson, aðstoðarskólastjóri í Álftamýrarskóla, aðspurður um hvaða áhrif það hafi á skólastarf að leggja niður stöðu skólastjóra.
Í tillögunum sem meirihlutinn í borginni kynnti í gær er lagt til að yfirstjórnir sex grunnskóla verði sameinaðar í þrjár en fyrir vikið verður skólastjórnendum fækkað. Meðal annars er lagt til að sameina yfirstjórnir Hvassaleitisskóla og Álftamýrarskóla og gagnrýndi Guðni áformin harðlega áður en þau voru formlega staðfest á kynningarfundi í Ráðhúsi Reykjavíkur síðdegis í gær.
Slæm reynsla af sameiningu
„Ég ræddi við skólastjóra sem er í svipuðum aðstæðum. Þar var skóli lagður niður og annar tók yfir hluta starfseminnar. Slík tilfærsla slítur allt skólastarf úr samhengi og eini kosturinn er að í öðrum skólanum fær hann næði til að vinna í pappírsvinnu. Ég ímynda mér að það verði ekki þessi yfirsýn sem nauðsynleg er og þessi tengsl og þessi samskipti og nándin við nemendur og starfsfólk.“
„Þetta er kannski ekki aðalmálið heldur að Hvassaleitiskóli og Álftamýrarskóli, þótt þeir séu nálægt landfræðilega séð hvor öðrum, eru gjörólíkir. Við í Álftamýrarskóla erum með allt aðra hugmyndafræði, viðhorf og nálgun í okkar störfum heldur en Hvassaleitisskóli. Ég get fullyrt að það er eins og svart og hvítt. Það eru eins miklar andstæður í viðhorfum, nálgun og hugmyndafræði og öllu innra starfi. Það er hreint með ólíkindum að nokkrum manni detti í hug að sameina þessa tvo mjög svo ólíku skóla.“
Ólík stefna skólanna
- Í hverju liggur þessi munur?
„Hann liggur til dæmis í því að í stefnu okkar erum við með samkennsluárganga. Þannig er mál með vexti að samkennsla er notuð í tvennum tilgangi. Annars vegar í sparnaðartilgangi og hins vegar í ákveðnum kennslufræðilegum tilgangi. Úti á landi eru dæmi um svo fámenna bekki að það eru sex, sjö og átta ára börn í sömu stofunni. Hin upphaflega hugmyndafræði samkennslu sem kemur frá fámennum skólum.
Fyrir nokkrum árum var staðan sú að það voru um það bil 30 börn í hverjum árangi. Það þýddi einn bekk með 30 börnum eða tvo með 15 börnum. Hagkvæmni stærðarinnar var þarna engin. Þess vegna brá Brynhildur Ólafsdóttir, skólastjóri, á það ráð að skeyta saman tveimur árgöngum. Við getum tekið til dæmis 2. og 3. bekk, þar sem voru 30 börn í hverjum árgangi. Þar voru samtals 60 börn. Hún gat gert þrjá 20 manna bekki. Þetta er samkennslan í hagræðingarskyni.
Samkennsla í kennslufræðilegum skilningi er að þarna er breiður barna. Þetta er aðferð í einstaklingsmiðaðri kennslu. Og það er sú kennsla sem er iðkuð hér. 18% nemenda okkar eru af erlendu bergi brotnir og af 25 þjóðernum. Þar af eru 10% sem að tala ekki íslensku heima hjá sér. Það er ekkert um slíkt að ræða í Hvassaleitisskóla.
Við erum með öfluga sérkennslu, námsver og stuðningsfulltrúa. Það er ekkert slíkt í Hvassaleitisskóla. Við erum með skólaliða sem þrífa hér jafnframt því að gegna skyldum sem gangaverðir og kennslufólk í frímínútum. Það er ekkert slíkt í Hvassaleitisskóla. Þar eru aðkeypt þrif. Þar hefur til skamms tíma verið aðkeyptur matur. Hvassaleitisskóli er mjög fámennur skólir þar sem er einn bekkur í hverjum árgangi. Þetta þýðir að kennarar sem vilja fá fulla stöðu hafa verið með greinabundna kennslu sem er önnur vinnubrögð en þau sem við erum með en hér kenna umsjónarkennarar í 1. 7. bekk allar greinar nema list - og verkgreinar.“