„Fólk var svolítið sjokkerað, aðallega þegar það kom inn í flugstöðina og fékk fullt af liði á móti til að hjálpa sér og áttaði sig þá kannski fyrst á því hvað það munaði litlu," segir Jónas Þór Sigurgeirsson, einkaflugmaður, sem var einn farþega í vél FÍ sem fór út af brautinni á Grænlandi síðdegis.
Jónas segir að sér virðist sem vélin hafi sloppið vel og hæglega hefði getað farið verr í ljósi aðstæðna. „Hún fór eiginlega út af á besta stað, því ef hún hefði farið bara 50-70 metrum fyrr út af þá hefði hún lent þarna bara á þverhníptum klettum. Þá hefðu flugmennirnir allavega farið illa held ég. En hún lendir bara á svona malarbing. En gólfið gekk upp í henni og það kom snjór þarna inn, svo hún er örugglega ónýt, eða það sýnist mér."
Jónas segir að ekki hafi verið mikil ókyrrð í loftinu fyrir lendingu og farþegar hafi því verið rólegir þegar vélin fékk skyndilega vindhnút á sig. „Ég skynjaði að það væri eitthvað skrýtið að gerast því hún lyftist upp vindmeginn og lagðist á hjólið hlémegin, og hjólið bara gaf sig. Það kemur þarna hnútur á hana á versta tíma, þvert á brautina, og þetta eiginlega gat ekki farið betur miðað við að lenda í því að missa hjólið akkúrat þegar hún snertir jörð á þessum hraða."
Vel gekk að koma farþegum út um neyðarútganga að sögn Jónasar en nokkur titringur var í hópnum þegar hann komst á jafnsléttu og fyrsta áfallið fór að renna af þeim. Öllum var boðin áfallahjálp sem það vildu.