„Ég hef haft þá trú að ráðist hafi verið í sameiningar í grunnskólunum í fullri meðvitund um það. Þetta hefur verið gert með eins mikilli tillitssemi og mögulegt er og eins mikilli samvinnu og unnt er, segir Jón Gnarr, aðspurður hvort tillit sé tekið til sérkenna skóla við hagræðingu í skólakerfinu.
- Svona breytingar eru ekki sársaukalausar. Stjórnendur sem hafa haft sínar áherslur í skólum sínum þurfa að sætta sig við að þær flytjist annað. Hvernig myndirðu vilja ávarpa þennan hóp?
„Að reyna að sjá tækifæri í breytingunum til þess að framkvæma sömu verk en með öðru verklagi og ná fram þeim árangri sem að við teljum faglega nauðsynlegan en með öðrum leiðum. Það er einlægt markmið allra, að skaða ekki innra starfið. Þetta er aðgerð sem er gerð til þess að tryggja og halda utan um innra starf skólanna, þ.e.a.s. að börnin beri ekki af skaða af þessum breytingum.“
Unglingum verður hjálpað
- Unglingsárin geta verið viðkvæm ár í lífi margra. Þarna er rætt um að flytja unglingadeildir á milli hverfa. Ætlið þið að gera eitthvað til að koma til móts við börnin?
„Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að gera þetta eins auðvelt og þægilegt fyrir börnin og mögulegt er. Ég hef einmitt sérstaklega verið mjög vakandi fyrir hlutskipti þeirra sem eru utangarðs eða eiga á einhvern hátt undir högg að sækja einhvers staðar í skólakerfinu og félagslífi.“
- Eigið þið til fjármagn til að hjálpa þessum krökkum núna?
„Ég tel að svo sé. Við munum forgangsraða í þágu barna. Við munum tryggja þessum börnum aðstoð.“
- Nú heldur minnihlutinn því fram að sparnaðurinn sem náist fram með þessum aðgerðum sé óverulegur.
„Sparnaðurinn sem fæst með þessu er misjafn eftir því hvernig hann er reiknaður og hvað tekið er með í breytuna og eins hvað reiknað er til langs tíma. Ég lít á þetta sem framtíðarlausn en ekki skyndilausn. Ég fellst heldur ekki á að þetta sé of mikið rask fyrir of lítinn sparnað. Ég sé mikinn sparnað í þessu til langs tíma. Við erum að spara mörg hundruð milljónir á hverju ári.“
- Nú er talsverð starfsmannavelta í leikskólum. Þú óttast ekki að fækkun stjórnenda í leikskólum muni leiða til þess að nokkrir hverfi á braut?
„Nei. Ég óttast það ekki,“ segir Jón Gnarr borgarstjóri.