Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hyggst leggja það fyrir fund ríkisstjórnarinnar í dag að lögreglan fái auknar fjárheimildir til að ráða við skipulagða glæpastarfsemi hér á landi.
„Það hefur verið skorið niður hjá lögreglunni [...] og það hefur bitnað á starfi lögreglunnar. Við erum að horfa sérstaklega til þessa þáttar núna. Við forgangsröðum núna gegn ofbeldi,“ sagði Ögmundur á blaðamannafundi sem hann hélt í gær með yfirmönnum lögreglunnar og tollgæslunnar. Þar kom fram að löggæsluyfirvöld ætla að skera upp herör gegn innlendum sem erlendum glæpagengjum. Leggja á frumvarp fram á Alþingi á allra næstu dögum en þau lög gætu rýmkað rannsóknarheimildir lögreglunnar.
Í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að vísbendingar eru um að skipulögð glæpastarfsemi færist í vöxt hér á landi og vaxandi spenna sé ríkjandi í undirheimunum.