„Fræðsluyfirvöld í Reykjavík hafa verið meðvituð um það í langan tíma að nemendum fækkar ár frá ári í grunnskólunum. Lengi hafa verið áhyggjur af mjög fámennum unglingadeildum, og svo framvegis,“ segir Oddný Sturludóttir, formaður menntaráðs, um hagræðingu í skólum.
„Nú er tækifæri til að skoða það upp á nýtt og fara í breytingar. Varðandi faglega þáttinn og stefnur skóla að þá er það starfsfólk skólanna, stjórnendur og kennarar, sem móta stefnuna hverju sinni, ásamt nemendum og foreldrum. Það sem gerist við sameiningu er undir nýja stjórnendaparinu komið. Að skoða styrkleika hvors skóla fyrir sig og það er ekkert sem segir að það þurfi að umbylta eða hætta góðu starfi sem þegar er unnið.
Skólastjórnendur fara kannski ólíkar leiðir að því að sameina skóla. Það er ekkert sem segir að þeir þurfi allir að vera eins. Kannski gætu þeir nýtt styrkleika í faglegu starfi hvors um sig og byggt á því og farið svo út í einhverjar aðrar áttir í sinni skólaþróun.“
Spretta ekki fram fullskapaðir
Á tímum sem þessum, þegar fámennir skólar, bæði litlir leikskólar og grunnskólar sem eiga erfitt með að nýta sitt húsnæði, og erum á öllum sviðum borgarinnar að reyna að stækka og styrkja okkar rekstrareiningar - og minnka yfirbyggingu að þá er það alltaf áskorun að takast á við slíkt. Sameinaðir skólar spretta ekki fram fullskapaðir um leið og við samþykkjum tillögu í borgarráði.
Ekki frekar en að það gerist með nýstofnaða skóla í nýjum hverfum, það tekur tíma og það er heillangt ferli sem vinnst best ef þátttaka allra í skólasamfélaginu er tryggð.“
Hverfin ganga í gegnum uppbyggingarfasa
Máli sínu til stuðnings bendir Oddný á hverfaþróun í borginni.
„Í Grafarvogi byggðust upp á tímabili margir litlir og heildstæðir skólar sem voru gjarnan mjög nálægt hvor öðrum. Síðan ganga þessi hverfi í gegnum uppbyggingarfasa og þá er mjög mikið af barnafólki og fullt í öllum hornum og skólarnir mjög vel nýttir.
Síðan eldist hverfið og það fækkar í skólum. Þá standa fræðsluyfirvöld og skólastjórnendur frammi fyrir því að unglingadeildin er til dæmis orðin mjög fámenn. Það hefur líka sína kosti en það er mat okkar í starfshópnum að það sé frekar vænlegra að stækka þær og það gerum við með því að bjóða unglingunum skólavist í nærliggjandi skóla.“
Margir þurfa að fara dálítinn spotta
- Nú þurfa margir unglingar sumir hverjir að fara um langan veg. Hefurðu áhyggjur af því?
„Við gerðum þetta fyrir fjórum árum þegar að unglingarnir í Staðahverfi fóru yfir í Víkurskóla. Við erum með ákveðnar reglur í borginni að ef fjarlægðin fer yfir ákveðinn kílómetrafjölda, að þá eru strætómiðar. Svo gætum við að öryggi og samgöngum og öllu slíku. En við erum auðvitað með hefð fyrir þessu, að krakkar úr í Seláshverfi sæki Árbæjarskóla og að krakkar úr Ártúnsholti sæki Árbæjarskóla. Í Vesturbænum eru krakkar í Skerjafirðinum að fara í Hagaskóla. Það er dálítill spotti.“
- Þannig að þú telur að þetta feli því ekki í sér eðlisbreytingu varðandi jafnræðissjónarmið?
„Nei. Alls ekki. Þetta er vel þekkt. Í Réttarholtsskóla eru krakkar að koma úr Fossvogsskóla og Breiðagerðisskóla.“
Óttast ekki atgervisflótta
- Þú óttast ekki að stjórnendur í leikskólum muni hverfa á braut ef stjórnunarstöðum verður breytt þar sem sameiningar er um að ræða?
„Við þurfum sannarlega á öllum okkar frábæru stjórnendum að halda en í breytingum sem þessum má búast við að einhverjir vilji snúa sér að öðrum verkefnum. Við getum boðið öllum áfram störf en það verða færri stjórnunarstöður, og breyttar stjórnunarstöður. Í tveimur leikskólum eru leikskólastjóri og aðstoðarleikskólastjóri í báðum. Þessi fjögur störf eru lögð niður, fjórum sagt formlega upp og svo tvær stöður auglýstar í staðinn, staða leikskólastjóra og aðstoðarleikskólastjóra.
Á þeim tíma sem breytingarnar ganga í gegn verða margar stöður auglýstar.Þannig að áhugasamur stjórnandi sækir um þá stöður sem hann hefur áhuga á, eina eða fleiri. Aðstoðarleikskólastjórnendur eru mjög mikilvægir en hluti leikskóla eru hins vegar svo litlir að sumir þessara stjórnenda eru margir hverjir í 10-20% hlutfalli í stjórnun. Annars eru þeir
deildarstjórar á sinni deild og halda þeirri stöðu auðvitað áfram.“
Starfsmannaveltan minni en í góðærinu
- Er mikil starfsmannavelta á leikskólunum?
„Hún er auðvitað mjög lítil í dag miðað við hvernig hún var 2005 til 2008. Það er mikill stöðugleiki í leikskólum og grunnskólum miðað við hvernig staðan var árin 2005 til 2008. Og í raun hefur uppbygging leikskóla í Reykjavík verið hröð síðan hún hófst fyrir alvöru í tíð Reykjavíkurlistans. Það hefur alltaf verið áskorun að manna leikskólana.“
- Þannig að þú óttast ekki að þessar breytingar muni hafa í för með sér að hæfir einstaklingar muni kjósa að hætta störfum?
„Það er mjög lítil starfsmannavelta á meðal stjórnenda hjá Leikskólum
Reykjavíkur. Það er staðreynd. Það hefur verið meiri starfsmannavelta í öðrum störfum í leikskólunum, en ekkert í líkingu við það sem var fyrir hrun. Í sumum tilvikum gæti einstaklingur sem er leikskólastjóri í dag orðið aðstoðarleikskólastjóri í öðrum stærri leikskóla heldur en hann stýrði áður. Í þessu felast auðvitað breytingar á störfum en við getum boðið öllum starf.
Ég hef líka litið svolítið á þetta sem eflingu fyrir þá sem kjósa starf aðstoðarleikskólastjóra en eru í mjög litlum skóla í dag og í mjög litlu hlutfalli í stjórnun. Sá sem sinnir stjórnunarstörfum í 10-20% vinnutímans er ekki að efla stjórnunarhæfileika sína nægilega. Það eru tækifæri fyrir þessa
einstaklinga að stækja um stöðu aðstoðarleikskólastjóra í miklu stærri
skólum og vera þá kannski í 40% vinnutímans í stjórnun.“
Verkefni sem tekur nokkur ár
Oddný leggur áherslu á að þessari vinnu sé langt í frá lokið.
„Mikilvægasti hlutinn af þessari vinnu er ekki byrjaður. Það er innleiðingarferlið. Það er að foreldrar, starfsfólk og stjórnendur í nýsameinuðum skólum setjist niður, greini styrkileika hjá hvorum skóla fyrir sig og vinni saman að því að móta stefnuna.
Það sprettur ekki fram um leið og við samþykkjum tillögur í borgarráði. Það er verkefni sem tekur eitt, tvö eða þrjú ár. Hún getur oft falið í sér áskoranir og endurnýjunarþrótt fyrir eldri skóla og svo er það auðvitað gömul saga og ný að skólaþróun og mótun stefnu skóla á sér stað á hverjum degi, sífellt og alltaf,“ segir Oddný Sturludóttir.