Óraunhæft er að ætla eða halda því fram að staða Íslands innan EES-samningsins breytist þótt Íslendingar hafni Icesave-samningnum og málið fari fyrir dómstóla, að mati Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors.
„Í EES-samningnum eru uppsagnarákvæði en áður en til uppsagnar kemur þarf að fara í langt ferli þar sem reynt er að jafna ágreining aðila og þá ber að hafa í huga að það er framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem fer með málefni EES-samningsins og hún þarf að samþykkja uppsögn hans. Það er því fræðilegur möguleiki á því að hægt sé að segja upp EES-samningnum en ekki raunhæfur,“ segir Stefán Már í samtali í Morgunblaðinu í dag.