Sanddæluskipið Skandia hefur lónað fyrir utan Landeyjahöfn síðan í morgun, en skipið hefur ekki komist inn í höfnina vegna öldugangs. Spáð er vaxandi SV-átt á morgun og brælu alla næstu viku.
Guðjón Egilsson, hjá Íslenska gámafélaginu sem gerir Skandia út, segir að dæla þurfi sandi úr hafnarkjaftinmu til að Herjólfur geti komist inn í höfnina. Menn hafi vonast eftir að hægt væri að vinna við dælingu í dag, en enn sem komið er sé ölduhæð of mikil . Menn ætli þó að sjá til fram eftir degi.
Ekkert hefur verið hægt að dæla í þessari viku og útlitið er allt annað en gott í næstu viku. Það er því alls óvíst hvenær hægt verður að fara að nota Landeyjarhöfn að nýju.