Sendir úr landi í lögreglufylgd

Merki Hells Angels var sett í dag á félagsheimili MC …
Merki Hells Angels var sett í dag á félagsheimili MC Iceland í Hafnarfirði. mbl.is/Golli

„Við höfum ákveðið að senda þá úr landi vegna þess að við höfum rökstuddan grun um að þeir muni eiga þátt í glæpsamlegu hátterni og óspektum á almannafæri hér í Noregi," segir Mona Elin Hertzinberg, yfirmaður lögreglunnar í umdæmi Gardermoen flugvallar í Osló, um brottvísun félaganna átta í MC Ísland mótorhjólaklúbbnum frá Noregi.

„Grunur okkar byggist á því að þarna er um að ræða hóp manna þar sem nokkrir hafa verið dæmdir á Íslandi fyrir glæpi og að þeir höfðu í huga að heimsækja hóp manna í Ósló sem einnig hafa verið dæmdir fyrir alvarlega glæpi. Það er staðfest að þeir ætluðu að heimsækja Hells Angels í Ósló," segir Hertzinberg. Hún tekur fram að mennirnir hafi ekki verið handteknir heldur settir í varðhald og þeir verði áfram í varðhaldi þar til þeir verða sendir burt.

Til stóð að félagarnir í MC Iceland tækju þátt í inntökuathöfn í samtökin Hell's Angels en evrópska lögreglan Europol hefur skilgreint Hell's Angels sem skipulögð glæpasamtök. Að sögn Hertzenberg hefur aðeins einn úr hópnum, Einar Ingi Marteinsson formaður MC Iceland, kært brottvísunina. Lögfræðingur hans, Trond Olsen Næss  hjá Furuholmen lögfræðistofunni, óskaði eftir því að brottvísuninni yrði frestað þar til kæran verður tekin fyrir. „Þessari beiðni hafnaði ég," segir Hertzenberg. Einar Ingi verður því sendur úr landi ásamt félögum sínum en kæran verður tekin fyrir síðar.

Hertzenberg segir að Íslendingarnir verði sendir burt með lögreglufylgd. Enn sé verið sé að ráða fram úr því hvenær af því verði en þeir verða áfram í varðhaldi þangað til. Næsta beina flug á milli Osló og Keflavíkur er í fyrramálið.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert