Regluvörður Landsbankans hafði haustið 2008 ekki upplýsingar um, að breska fjármálaeftirlitið vildi setja 5 millljarða punda innlánaþak á heildarinnlán á Icesave-reikningum Landsbankans í Bretlandi.
Þetta kom fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag þegar tekin var skýrsla af Þórði Örlygssyni, sem var regluvörður Landsbankans á þessum tíma. Hann sagðist fyrst hafa heyrt af þessum kröfum breska fjármálaeftirlitsins í fjölmiðlum nýlega.
Þórður sagði aðspurður, að það hefði ekki verið talið að yfirfærsla Icesave-reikninganna í dótturfélag í Bretlandi, sem rætt var um á þessum tíma, myndi hafa áhrif og vöxt og tekjustraumi bankans. Ekki hefði verið búinn til sérstakur innherjalisti vegna þessa máls.