Bændabýli teljast nú fóðurfyrirtæki, samkvæmt reglugerð sem gefin var út á síðasta ári. Matvælastofnun mun í þessum mánuði hefja eftirlit með fóðri og fóðrun í samræmi við það og hefst handa hjá bændum í Ölfusi, Ásahreppi og Rangárþingi eystra.
Í reglugerð um kröfur um hollustu fóðurs er mest áhersla lögð á fjögur atriði, að því er fram kemur á vef Matvælastofnunar.
Skrá þarf alla starfsemi búsins sem ekki fellur beint undir hefðbundinn búskap. Er þar átt við til dæmis þurrkunarstöð fyrir bygg eða annað korn, flutning á fóðri, sölu fóðurs, verktöku við slátt eða þreskingu o.s.frv. Bændur þurfa því að láta MAST vita formlega um alla slíka starfsemi.
Verja þarf fóður gegn meindýrum og utanaðkomandi mengun. Geyma þarf fóður aðskilið frá öðrum efnum eins og áburði, fræjum, hreinsiefnum, olíu og eiturefnum og fjarri tækjum og verkfærum.
Fóðurfyrirtæki þurfa að geta rakið aðkeypt fóður samkvæmt lotunúmerum eða framleiðsludagsetningu til seljanda eða framleiðanda. Jafnframt þurfa þau að geta rakið afhent eða selt fóður skv. lotunúmerum eða framleiðsludagsetningu til mótakanda eða kaupanda.
Búfjáreftirlitsmenn munu sjá um eftirlitið samhliða árlegri vorskoðun. Kostnaður bænda er áætlaður liðlega 7 þúsund krónu, að því er fram kemur á vef Matvælastofnunar..
Á næstu 5 árum mun samskonar eftirlit eiga sér stað hjá öllum bændum á landinu. Á býlum þar sem ekki eru gerðar neinar athugasemdir má búast við samskonar eftirliti á 5-15 ára fresti. Þar sem gerðar eru athugasemdir má búast við heimsókn eftirlitsfólks að nýju innan árs.