MC Iceland er orðið fullgildur aðili að Vítisenglum og þar með er ljóst að þessi hættulegu glæpasamtök hafa ekki aðeins náð fótfestu hér á landi heldur fest rætur. Herða á aðgerðir gegn Vítisenglum og öðrum glæpasamtökum sem hér starfa og til marks um það samþykkti ríkisstjórnin í gær að veita 47 milljónir aukalega til sérstaks átaks gegn skipulagðri brotastarfsemi.
Það breytir engu um aðild MC Iceland að Vítisenglum (Hell´s Angels) að átta félagar MC Iceland hafi verið stöðvaðir á Gardermoen-flugvelli við Ósló í gærmorgun og síðan vísað úr landi þannig að þeir komust ekki á inntökuathöfn sem fyrirhuguð var í Noregi um helgina. Til marks um það þá var skilti með merki Vítisengla og MC Iceland sett utan á félagsheimili klúbbsins í gær og þess má vænta að félagar í MC Iceland muni setja merki Vítisengla á jakka sína.
Greinilegt er af viðtölum við yfirmenn í lögreglu og tollgæslu í gær að þeir hafa verulegar áhyggjur af því að aðildin leiði til aukinna afbrota og meiri hörku í undirheimum.
Yfirmaður í lögreglunni, einn þeirra sem hvað best þekkja til starfsemi Vítisengla, benti á að með því að MC Iceland væri orðið fullgildur meðlimur í Vítisenglum gætu þeir kallað eftir ýmiss konar stuðningi frá Vítisenglum á heimsvísu. Félagar í Vítisenglum hefðu t.d. aðgang að sjóði sem er notaður til að greiða verjendum. Þá gætu þeir, lentu þeir í vandræðum, t.d. í átökum við aðra glæpahópa, kallað á liðsauka frá öðrum klúbbum Vítisengla í öðrum löndum. Í nýju hættumati lögreglu kemur fram að með fullgildingu MC Iceland aukist hætta á uppgjöri milli glæpahópa. Staðfest er að hér starfi hópur pólskra og litháískra glæpamanna sem sé þekktur af hörku og ofbeldi, auk íslenskra glæpahópa. Lögregla hefur einnig upplýsingar um að annar alþjóðlegur glæpahópur, Outlaws, sé byrjaður að koma sér fyrir hér á landi. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins lítur lögregla svo á að hingað til hafi ríkt eins konar ógnarjafnvægi á milli hópanna en að með fullgildingu MC Iceland aukist hætta á átökum þeirra á milli. Félagar í MC Iceland gætu talið að þeir gætu, sem fullgildir meðlimir í Vítisenglum, færst meira í fang og aðrir hópar gætu litið svo á að þeim stafaði svo mikil ógn af Vítisenglunum að þeir yrðu að grípa til aðgerða gegn þeim.
Bæði Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum, og Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, vonast eftir því að auknar rannsóknarheimildir lögreglu leiði til þess að baráttan gegn skipulagðri glæpastarfsemi verði einfaldari og skilvirkari.
Sigríður Björk segir að baráttan standi gegn ýmsum skipulögðum glæpasamtökum sem hér starfa, þ.ám. þjófagengjum, svokölluðum vélhjólaklúbbum og eiturlyfjasmyglurum. „Þessi vinna krefst öðruvísi aðferða og meiri mannafla. Rannsóknin er flóknari enda eru afbrotin skipulögð og markviss. Það eru mörg gengi innan hvers hóps. Eitt sér um að selja þýfi, eitt sér um rukkun, eitt sér um að smygla fíkniefnum og svo framvegis. En það getur verið erfitt að sýna fram á tengsl milli gengjanna. Það fer mjög í taugarnar á mér að við í lögreglu og tollgæslu á Suðurnesjum skulum sífellt taka burðardýr fíkniefna en svo gengur misjafnlega að hafa uppi á þeim sem bera raunverulega ábyrgð á innflutningnum,“ segir hún.
Hún nefnir sem dæmi að nú sé erfitt fyrir lögreglu að rannsaka starfsemi glæpahópa. Það geti verið snúið að fá t.d. úrskurð til símhlerana vegna gruns eða upplýsinga um að hópurinn stundi skipulagða brotastarfsemi, ef grunurinn beinist ekki að tilteknu afbroti hjá tilteknum einstaklingi.
Halla býst við að frumvarpsdrög liggi fyrir mjög fljótlega.
Þá hefur Morgunblaðið fengið staðfest að hópur glæpamanna frá Póllandi og Litháen starfi saman, m.a. við að framleiða amfetamín. Þetta séu harðsvíraðir menn, hiki ekki við ofbeldisverk, og að aðrir glæpamenn á Íslandi óttist þá.
Menn af þessu tagi eru augljóslega mikil ógnun við íslenska lögreglumenn.
Lögreglumaður sem rætt var við benti á að skemmst væri að minnast grófrar árásar sem óeinkennisklæddir fíkniefnalögreglumenn urðu fyrir á Laugavegi í janúar 2008 en lögreglumenn áttu fullt í fangi með að verjast árásinni. Lögreglumennirnir bentu á að þeir hefðu bæði verið með lögregluskilti og hrópað að hér væri lögregla að störfum en árásarmennirnir, þeir þrír sem voru ákærðir, sögðust ekkert kannast við það.