Vélsleðamaðurinn sem björgunarsveitarmenn Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa leitað að við Hrafntinnusker, í námunda við Landmannalaugar, í dag er fundinn og hefur leit því verið afturkölluð. Maðurinn fannst heill á húfi.
Um 80 björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni. Maðurinn, sem var í símasambandi við þá, gróf sig í fönn við vélsleðann sinn og beið björgunar. Jón Hermannsson, björgunarsveitarmaður, segir manninn hafa brugðist hárrétt við þegar hann varð viðskila við félaga sína um hádegisbil í dag.
Leitarskilyrði á svæðinu voru mjög slæm.