Spkef sameinast Landsbankanum

Fjármálaeftirlitið ákvað á fundi sínum í dag NBI hf. taki yfir rekstur, eignir og skuldbindingar Spkef sparisjóðs með þeim hætti að Spkef sparisjóður verður sameinaður NBI hf. Í hádeginu undirrituðu fjármálaráðherra og Landsbanki Íslands samning um yfirtökuna og samrunann.

Er ákvörðun FME tekin á grundvelli heimildar í VI. ákvæði til bráðabirgða í lögum um fjármálafyrirtæki.

Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu segir að með þessari ráðstöfun sé tryggt að útgjöld ríkissjóðs vegna Spkef takmarkist við það sem á vanti að heildareignir sparisjóðsins svari til innstæðna. Ríkissjóður muni ekki leggja sjóðnum til nýtt eigið fé, en nýtt eigið fé hefði þurft að nema 8,2 millijörðum króna skv. mati Spkef.

„Samruni Spkef sparisjóðs við NBI hf.  raskar ekki uppgjöri milli Spkef sparisjóðs og fyrirrennara hans, Sparisjóðnum í Keflavík.  Einnig er ljóst að samruninn hafi engin áhrif á rétt slitastjórnar Sparisjóðsins í Keflavík til aðgangs að gögnum og upplýsingum um mál sem þar eru til rannsóknar sem slitastjórnin eða aðrir kynnu síðar að vilja hefja rannsókn á.

Ljóst er að samruni Spkef við Landsbankann hefur umtalsverðar breytingar í för með sér fyrir starfrækslu sparisjóðakerfisins. Bankasýsla ríkisins mun á næstu vikum eiga samráð við einstaka sparisjóði og fjármálastofnanir um málefni sparisjóðanna, en Bankasýslan undirbýr stefnumörkun varðandi framtíðarfyrirkomulag á starfsemi þeirra sparisjóða sem Bankasýslan fer með eignarhluti í.

Landsbankinn hefur upplýst fjármálaráðuneytið um að hann hyggst hafa náið samráð við starfsmenn og heimaaðila á starfssvæði sparisjóðsins vegna þeirra breytinga sem nú verða. Hefur verið lögð á það áhersla af hálfu fjármálaráðherra að tekið verði ríkt tillit til atvinnu- og þjónustuhagsmuna á starfssvæði sparisjóðsins á Suðurnesjum og á norðvestanverðu landinu,“ segir í tilkynningunni.

Skv. ákvörðun FME mun eftirlitið taka yfir vald stofnfjáreigendafundar SpKef sparisjóðs.

Á mánudag mun NBI hf. taka rekstri, eignum og skuldbindingum sjóðsins, skv. samningi milli íslenska ríkisins og NBI hf. um yfirtöku NBI á SpKef.

Fram kemur að um sé að ræða samruna án skuldaskila þannig að SpKef sé algjörlega sameinaður NBI með yfirtöku eigna og skulda (samruni með yfirtöku). Ekki sé þörf á innköllun eða auglýsingu vegna samrunans. 

Þá segir að uppsetning sameiginlegs efnahags- og rekstrarreiknings skuli miðað við 1. janúar 2011, sem teljist vera uppgjörsdagur samrunans skv. samningnum.

Telst SpKef vera slitið frá og með mánudeginum 7. mars kl. 8:30. Fram kemur að ekki sé skylt að gefa út innköllun til lánardrottna vegna slitanna.

Það er mat FME að hagsmunum viðskiptamanna, kröfuhafa og annarra hlutaðeigandi aðila sé gætt að þeirri ráðstöfun sem felst í samkomulaginu.

mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka