Miðað við samdrátt í akstri um Hringveginn fyrstu tvö mánuði ársins má gera ráð fyrir að umferð um Hringveginn geti minnkað um 5% á árinu í heild. Það er tvöfalt meiri samdráttur en spáð er fyrir höfuðborgarsvæðið.
Gangi þessar spár Vegagerðarinnar eftir verður umferðin í orðin minni en hún var árið 2006. Vegagerðin tekur fram á vef sínum að þar sem spáin grundvallast aðeins á upplýsingum frá tveggja mánaða tímabili geti breytingar á akstri fljótt haft áhrif.
Sláandi mikill samdráttur kemur fram í umferð um Hringveginn á sextán mælipunktum Vegagerðarinnar fyrstu tvo mánuði ársins, borið saman við sama tíma í fyrra.
Þannig dróst umferðin saman um 5,2% í febrúar og ríflega 6% þegar janúar og febrúar eru skoðaðir saman. Um er að ræða mesta samdrátt sem Vegagerðin hefur séð frá því samanburður á umferðartölum var fyrst birtur.
Enn meiri samdráttur kemur fram þegar miðað er við byrjun árs 2009, eða 9,4%.
Samdráttur mælist í öllum landshlutum. Mest dregst umferðin saman á Hringveginum um Austurland, eða tæp 10% þegar umferðin fyrir fyrstu tvo mánuðina er metin saman. 7,6% minni umferð mælist um Suðurland. Umferð um Vesturland og Norðurland hefur minnkað um 6,6-6,8%.
Minnst hefur umferðin minnkað á höfuðborgarsvæðinu á þessum tveimur mánuðum, eins og áður hefur komið fram. Hún dróst þó saman um 5,6% frá byrjun árs 2010.