Vélin flutt af slysstað

Vélin er mikið skemmd en hún rann út af flugbrautinni …
Vélin er mikið skemmd en hún rann út af flugbrautinni eftir að hjólabúnaður brotnaði mbl.is

Flugvöllurinn í Nuuk á Grænlandi er enn lokaður eftir að flugvél Flugfélags Íslands brotlenti þar í gær. Unnið er að því að koma vélinni af öryggissvæðinu þar sem hún endaði, en veðurskilyrði eru ekki góð og skyggni lítið.

Flugvélin brotlenti með þrjátíu og einn farþega og þriggja manna áhöfn innanborðs um hálffimmleytið að íslenskum tíma í gær. Enginn slys urðu á fólki en vélin, sem er af gerðinni Dash 8, er mikið skemmd. Ákveðið var að safna farþegum saman í dag til að fara betur yfir málin með sérfræðingum í áfallastjórnun.

Um 30 farþegar, sem áttu bókað far með flugfélaginu frá Grænlandi í gær, eru nú strandaglópar. Að sögn Árna Gunnarssonar framkvæmdastjóra Flugfélags Íslands, er beðið eftir að flugvöllurinn opni svo hægt verði að ná í farþegana. Hann býst við að þeir komist í loftið á morgun.

Ekki er hægt að segja að svo stöddu um orsök þess að vélin brotlenti en rannsóknin verður í höndum Rannsóknarnefndar flugslysa í Danmörku og fylgist íslensk rannsóknarnefnd með gangi mála. Að sögn Árna er rannsóknarnefndin ekki komin á slysstað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert