Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokkisns, hefur óskað eftir því að viðskiptanefnd Alþingis komi saman á fundi sem fyrst til að ræða fréttir af sameiningu SpKef og Landsbankans, samþjöppun í fjármálakerfinu, kerfisháhættu og framtíðarstefnumörkun fyrir íslenska fjármálakerfið.
Hún óskar eftir því að efnahags- og viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra
mæti á fund nefndarinnar ásamt forstjóra FME og seðlabankastjóra.
Eygló segir að sbr. frétt á vef Viðskiptablaðsins eigi ekki að endurreisa SpKef líkt og stjórnvöld hafi áður. Í fréttatilkynningu frá Fjármálaráðuneytinu sé þessu ekki hafnað, heldur aðeins ítrekað að innstæður séu að fullu tryggðar.
Þá bendir Eygló á orð Mervyn King, seðlabankastjóra Bretlands, sem hafi í viðtali lýst yfir miklum áhyggjum af kerfisáhættu í breska bankakerfinu, þar sem bankar séu ennþá of stórir til að stjórnvöld geti leyft þeim að fara í þrot án aðkomu stjórnvalda.
„Ég tel hættu á sömu stöðu hér ef við ætlum að byggja til framtíðar upp bankakerfi með 2-3 stórum bönkum. Ljóst er að innstæðutryggingasjóður mun aldrei geta staðið undir þroti eins af stóru bönkunum. Ríkisvaldið mun því aftur þurfa að koma til aðstoðar með ábyrgðum og björgunaraðgerðum sem skapar mikla siðferðislega áhættu og áhættusækni í bankakerfinu,“ segir Eygló.
Þá bendir hún á að enn hafi ekki verið skipuð nefnd á vegum efnahags- og viðskiptaráðherra sbr. bráðabirgðaákvæði VI í lögum um fjármálafyrirtæki, sem hafi verið samþykkt 23. júní 2010.
Ákvæðið sé svohljóðandi:
„Efnahags- og viðskiptaráðherra skal skipa nefnd sem hafi það hlutverk að móta stefnu um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins með hliðsjón af ábendingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, væntanlegum tillögum þingmannanefndar Alþingis um nauðsynlegar lagabreytingar og þeim breytingum sem gerðar hafa verið á lagaumhverfi fjármálageirans eftir fall bankanna. Nefndin skal m.a. skoða stöðu og starfsumhverfi sparisjóða, eignarhald fjármálafyrirtækja á vátryggingafélögum og öfugt, reglur um hámarkseignarhlut í fjármálafyrirtæki og hvernig verði best hægt að tryggja dreift eignarhald, og hvort skilja beri að starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.“
Eygló segir það mikið áhyggjuefni að stjórnvöld séu í raun að vinna blint, án raunverulegrar og skýrrar stefnumörkunar, að framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins án hliðsjónar af ábendingum í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, tillögum þingmannanefndar Alþingis og reynslu fyrri ára.