Björgunarsveitarmenn frá Höfn í Hornafirði og Kirkjubæjarklaustri eru nú á leið á Öræfajökul til að aðstoða þrjá gönguskíðamenn sem þar eru staddir. Mennirnir hafast við í tjöldum og hafa óskað eftir því að verða sóttir.
Að sögn lögreglunnar á Höfn eru mennirnir vel búnir en hvasst er á jöklinum og erfitt að ferðast. Nákvæmlega er vitað hvar mennirnir eru staddir. Að sögn lögreglunnar verður hugsanlega reynt að nálgast mennina á vélsleðum snjóbíl.
Ætlunin er að ná mönnunum niður í kvöld. Um Íslendinga er að ræða að því er lögreglan best vissi. Ekki er talið að mennirnir séu í hættu.
Stjórnstöð leitarinnar er á Höfn. Samkvæmt upplýsingum þaðan verður skoðað þegar nær dregur á hvaða tækjum verður farið á jökulinn til að sækja mennina.