Von er á átta félögum í MC Iceland til landsins í kvöld en mennirnir voru stöðvaðir á Gardemoen-flugvelli við Ósló í fyrradag. Lögreglan á Keflavíkurflugvelli hefur staðfest að von sé á mönnunum.
Gera má ráð fyrir að mennirnir verði lentir upp úr kl. 23 í kvöld þar sem það er eina flugið frá Gardemoen-flugvelli í Oslo til Keflavíkur, á áætlun Icelandair í kvöld.
MC Iceland er orðið fullgildur aðili að Vítisenglum og ætluðu íslensku félagarnir að vera viðstaddir inntökuathöfn Vítisengla sem var fyrirhuguð í Noregi um helgina.
Ekki hefur náðst í Morten Furuholmen, lögmann áttmenninganna, í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.