Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, segir að í tengslum við gerð nýrra kjarasamninga hafi sá möguleiki verið ræddur að lífeyrissjóðirnir fjármagni Sundabraut. Hann telur engar líkur á að farið verði út í tvöföldun Suðurlandsvegar.
„Það er orðið ljóst að það verður ekkert farið í þessa vegi fyrir austan fjall. Það er búið að strika þá í burtu vegna þess að fólk vill ekki greiða veggjald vegna þeirra. Sú spurning vaknar hins vegar hvort ekki eigi að fara í Sundabraut. Þar er mjög auðvelt að setja á veggjöld. Ég hugsa að lífeyrissjóðirnir væru alveg til í að fjármagna það verkefni, þ.e. stofna fyrirtæki og reka það,“ sagði Guðmundur.
Andstaðan við veggjöld á meginleiðir úr borginni markast m.a. af því að verið sé að neyða alla sem fara um vegina til að greiða veggjald. Guðmundur sagði að með því að fjármagna Sundabraut með veggjöldum þá geti þeir sem ekki vilji greiða veggjöld ekið um Mosfellsbæ.
Búið er að leggja mikla vinnu og kostnað í að undirbúa Sundabraut, en lítið hefur verið rætt um hana frá hruni. Guðmundur sagði að Sundabraut væri vel afmarkaði og skapaði meiri vinnu en tvöföldun Suðurlandsvegar.