Bændasamtökin úr Bændahöllinni?

Bændahöllin og Hótel Saga hafa verið í notkun frá árinu …
Bændahöllin og Hótel Saga hafa verið í notkun frá árinu 1962. mbl.is/Golli

Lögð hefur verið fram tillaga á búnaðarþingi um að skoða kosti þess að flytja Bændasamtökin úr Bændahöllinni og taka það rými undir hótelrými.

Bændasamtökin eiga Hótel Sögu sem oft er kölluð Bændahöllin. Fyrir nokkrum árum var sá möguleiki ræddur að samtökin seldu hótelið, en ekkert varð af því. Nú hefur verið lögð fram tillaga á búnaðarþingi sem felur í sér að „leitað verði leiða til að auka, eftir því sem unnt er, nýtingu og arðsemi þeirra fjármuna Bændasamtaka Íslands sem bundnir eru í Bændahöllinni.“

Í greinargerð er talað um að kanna þurfi kosti þess að taka alla þriðju hæð Bændahallar undir hótelrými. „Nú bendir margt til að verulegur vöxtur verði í ferðaþjónustu hérlendis næstu ár og því hlýtur þessi kostur að verða áleitnari. Þessu fylgir að sjálfsögðu að finna þarf nýtt aðsetur fyrir starfsemi samtakanna og ættu þar einnig að geta falist möguleikar til hagræðingar. Sérstaklega er ástæða til að skoða möguleika á að nýta aðstöðu, sem þegar er til staðar og er í eigu annarra samtaka eða félaga bænda, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert