Fyrirtæki krafin um verndargreiðslur

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins, að dæmi séu um að glæpamenn krefji fyrirtæki um greiðslur svo þau njóti verndar. „Þetta er svona eins og tíðkast hjá mafíunni," sagði Ögmundur, og bætti við að hann vildi ekki sjá Ísland þróast með þessum hætti.

Þá sagðist Ögmundur hafa rætt við sæmilega vel stæðan mann, sem hefði verið krafinn um allháar mánaðarlegar greiðslur. Þegar hann spurði um ástæðuna var svarið, að annars gæti hann ekki verið öruggur um um dóttur hans. 

Ögmundur sagði, að á undanförnum mánuðum hefði lögregla oftar en einu sinni þurft að veita vitnum í málum sérstaka vernd svo þau treysti sér til að koma fram. Og þá spyr maður sig: hve mörg eru þau vitni, sem aldrei koma fram?" sagði Ögmundur. „Og svarið er: þetta er ekki það Ísland sem við viljum hafa."

Blaut tuska í andlit almennings

Ögmundur var í Kastljósinu einnig spurður um álit á launum bankastjóra stóru bankanna en upplýsingar um þau hafa komið fram á síðustu dögum. Ögmundur sagði, að einhver  kynni að segja, að þetta væru einkafyrirtæki og því kæmu launagreiðslur almenningi ekki við.

„En við höfum nú fengið að kynnast því, Íslendingar, að bankakerfið kemur okkur við  sem skattgreiðendum og að sjálfsögðu sem viðskiptavinum. Og ég spyr: hvar er sjálfsvirðing þessa fólks? Ég kem ekki auga á hana. Og hvar er aðhaldið?" spurði Ögmundur. Sagði hann að þessi blauta tuska í andlit almennings kynni ekki góðri lukku að stýra.

Ögmundur sagðist telja, að það kæmi vel til greina að skoða hugmynd, sem Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, viðraði í kvöld að skattleggja sérstaklega laun sem eru yfir 1 milljón á mánuði. En fyrst og fremst sagðist Ögmundur horfa til bankanna sjálfra, bankaráða og stjórnenda þeirra. Hluti af endurreisn Íslands ætti að vera að menn spyrji inn á við.

Sigmar Guðmundsson, ritstjóri Kastljóss, spurði hvort hluti af þessu aðhaldi gæti verið siðleg afstaða hjá fólki að hætta viðskiptum við stofnanir sem misbjóða því siðferðislega. Ögmundur sagði, að fyrirtæki gætu vel staðið fyrir þeirri hættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka