Samninganefndir ASÍ og Samtaka atvinnulífsins hófu formlegar viðræður um launalið kjarasamninga á fundi sem hófst eftir hádegið. Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, sagði fyrir fundinn að hann óttaðist að talsvert beitt bil væri milli manna. Tillaga um 7% launahækkun á þremur árum væri eitthvað sem launþegahreyfingin gæti alls ekki fallist á.
Samningamenn ASÍ og SA voru á fundum um sérmál í morgun. Guðmundur sagði að menn væru ekki búnir að klára þau mál, en staðan væri farin að skýrast um helstu ágreiningsefnin.
„Ég hef grun um að það eigi eftir að koma í ljós að það beri talsvert mikið á milli. Þær tölur sem Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, hefur nefnt eru fjarri því sem við getum sætt okkur við. Meginatriðið er að hækka kaupmátt og verður engin kaupmáttaraukning ef það á einungis að hækka laun um 7% á næstu þremur árum,“ sagði Guðmundur.
Guðmundur sagði að eftir fund í síðustu viku með fulltrúum stjórnvalda hefðu fulltrúar ASÍ fengið á tilfinningu að ríkisstjórnin hefði ekki áttað sig á að hún gegndi ákveðnu hlutverki í því að koma saman nýjum kjarasamningum. „Í hádeginu kom hins vegar mjög ítarlegt plan um fundi. Það er eins og stjórnvöld hafi tekið við sér. Það er því að fara af stað vinna um hvort hægt sé að ná saman um þessi meginatriði.“
Guðmundur sagði að bæði ASÍ og SA legðu mikla áherslu á atvinnumál og því hefðu stjórnvöld verið krafin svara um einstök atriði. Í hagspá væri t.d. gert ráð fyrir framkvæmdum við álver í Helguvík. Samt væri eins og stjórnvöld hefðu enga skoðun á því hvaðan orka til þessa álvers ætti að koma.