Ríflega 200 foreldrar leikskóla- og grunnskólabarna í Breiðholti mættu á íbúafund í kvöld vegna tillagna um sameiningu skólanna. Mikill hiti var í fundarmönnum og í lok fundar var samhljóða samþykkt ályktun þar sem skorað er á borgaryfirvöld að falla frá sameiningaráætlunum.
Fyrir fundinum stóðu sjálfstæðisfélögin í Breiðholti og boðuðu þau fulltrúa allra stjórnmálaflokka í borginni ein einungis fulltrúar Sjálfstæðisflokks þáðu boðið. Á fundinum kom fram mikil óánægja með fyrirhugaðar sameiningar og niðurskurðartillögur, og kvartað undin skorti á samráði við íbúana í hverfinu.
Í ályktun fundarins segir að hugmyndirnar séu byggðar á hæpnum, illa ígrunduðum og illa rökstuddum forsendum. „Fundurinn setur sig ekki upp á móti áformum sem unnin eru á faglegum forsendum í nánu samstarfi við foreldra, starfsfólk og stjórnendur viðkomandi stofnana enda sé sýnt fram á að breytingarnar hafi í för með sér sparnað og faglegan ávinning. Við teljum að þessir þættir hafi ekki verið tryggðir í þeim tillögum sem liggja fyrir," segir í ályktuninni.