Engar frekari ábendingar hafa komið um tvo menn sem reyndu fyrir helgi að lokka 8 ára gamlan dreng upp í bíl til sín. Málið var tilkynnt til lögreglu sem lét lýsingu á mönnunum tveimur berast til allra sem voru á vakt, en að sögn lögreglu hafa þeir ekki fundist.
Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir íþróttafulltrúi Stjörnunnar í Garðabæ sendi fyrir helgi póst til foreldra barna sem æfa hjá Stjörnunni vegna atviksins, en tveir menn sátu um Stjörnuvöllinn í Garðabæ og reyndu þar að fá 8 ára dreng sem var að koma af æfingu upp í bíl til sín til að skoða fótboltadót sem þeir sögðust eiga þar. Drengurinn hafði vit á því að fara ekki upp í bílinn og lét foreldra sína vita.
Að sögn drengsins var bíllinn svartur og mennirnir tveir, annar meðyfirvaraskegg og mjóan hökutopp. Ásta segir að eftir að viðvörun var send út til foreldra hafi einn maður sagst hafa séð mennina. „Það sást til þeirra sama dag annars staðar nálægt íþróttavellinum. Það var foreldri sem sá þá og fannst þetta mjög furðulegt að þeir væru þarna en áttaði sig ekki á því fyrr en eftir á þegar pósturinn var sendur."
Í póstinum var ítrekað við foreldra að minna
börn sín á það að fara aldrei upp í bíla með ókunnugum og láta strax vita ef
slíkt stendur þeim til boða. Ásta segir að foreldrar sem og íþróttafélögin í næstu bæjarfélögum hafi þótt gott að vera vöruð við því að hættulegir menn kunni að vera á ferð.